Fótbolti

Sat eftir al­blóðug í leik At­hletic og Betis

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guadalupe Porras hefur dæmt þægilegri leiki en viðureign Real Betis og Athletic Bilbao.
Guadalupe Porras hefur dæmt þægilegri leiki en viðureign Real Betis og Athletic Bilbao. Twitter@marca

Leikur Real Betis og Athetic Bilbao var athyglisverður fyrir margar sakir. Betis vann góðan 3-1 sigur en ótrúlegt atvik skildi Guadalupe Porras, annan af aðstoðardómurum leiksins, eftir alblóðuga.

Sigur Betis þýðir að nú munar aðeins sjö stigum á liðunum í 5. og 6. sæti La Liga, spænsku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu.

Það var þó ótrúlegt atvik sem stal senunni ef svo má að orði komast þegar ein af myndtökuvélum leiksins rataði þangað sem hún átti ekki að fara. Fór það svo að Porras skall á vélinni í þann mund sem Chimy Avila hafði komið Betis yfir á 13. mínútu leiksins.

Þurfti að stöðva leikinn í kjölfarið því aðstoðardómarinn sat alblóðug eftir. Var hún borin af velli og send með sjúkrabíl upp á sjúkrahús. 

Fyrst var óljóst hvað gerðist en síðan kom í ljós að ein af myndbandsupptökuvélum leiksins var í hlaupalínu Porras. Þegar Porras var að horfa á það sem var að eiga sér stað á vellinum á meðan hún hljóp eftir hliðarlínunni varð harður árekstur. Leikurinn tafðist um drykklanga stund en fjórði dómari tók við stöðu Porras á hliðarlínunni.

„Vinsamlegast leyfið aðstoðardómurunum að vinna vinnuna sína líkt og þið leyfið leikmönnum að vinna vinnuna sína,“ sagði Eduardo Iturralde Gonzalez, fyrrverandi dómari í La Liga, um málið og beindi skilaboðum sínum til Javier Tebas, forseta deildarinnar.

Bilbao hefði með sigri jafnað Atlético Madríd að stigum en Atlético situr í fjórða og síðasta sætinu sem veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Sem stendur er Atl. Madríd með 52 stig í 4. sæti, Athletic með 49 sæti neðar og Betis með 42 stig í 6. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×