Íslenski boltinn

Adam Ægir tryggði Vals­mönnum sigur eftir að hafa lent undir

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Adam Ægir Pálsson sést hér í baráttu við Tryggva Snæ síðasta sumar. Adam kom inn af bekknum og tryggði Valsmönnum sigur í dag.
Adam Ægir Pálsson sést hér í baráttu við Tryggva Snæ síðasta sumar. Adam kom inn af bekknum og tryggði Valsmönnum sigur í dag. vísir / anton brink

Valur og Fram áttust við á N1 vellinum við Hlíðarenda í Lengjubikarnum í dag. Eftir að hafa lent undir tókst Valsmönnum að snúa lukkunni sér í vil og unnu leikinn að endingu 2-1. 

Jannik Pohl kom Fram yfir með laglegri afgreiðslu á 62. mínútu eftir frábæra utanfótar stungusendingu frá varamanninum Fred. 

Patrick Pedersen jafnaði metin fyrir heimamenn á 82. mínútu. Aron Jóhannsson skipti boltanum þá þvert yfir völlinn á Birki Má sem gaf hann fyrir á Patrick og hann kom boltanum í netið. 

Adam Ægir Pálsson var nýkominn inn á þegar hann tryggði Valsmönnum sigurinn á 87. mínútu . Þar fékk hann boltann í góðu plássi úti á vinstri vængnum, keyrði inn á völlinn og skaut með hægri fæti í nærhornið þar sem boltinn söng í netinu. 

Valsmenn stilltu upp sterku liði og nýliðarnir Jakob Franz Pálsson og Jónatan Ingi Jónsson fengu að spreyta sig. Framarar byrjuðu með lykilmennina Fred og Tiago á bekknum og gáfu ungum leikmönnum tækifæri fyrst um sinn. 

Valur vann fyrstu tvo leiki sína, 4-0 gegn Fylki og 7-1 gegn ÍBV, en tapaði síðast 2-0 gegn Þrótti. Þeir eru í efsta sæti riðilsins með 9 stig eftir fjóra leiki. 

Þetta var þriðji leikur Fram, þeir unnu Fylki 3-2 í fyrsta leik en lágu svo 2-1 fyrir ÍR í síðasta leik. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×