Lífið

Frikki þurfti að sækja Jón svo hann kæmist á Edrúar­tón­leika

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jónssynir á góðri stundu.
Jónssynir á góðri stundu. Vísir/Sylvía Hall

Bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónssynir tróðu upp á Edrúartónleikum SÁÁ í Bæjarbíói í kvöld. Jón sprengdi dekk á leiðinni á tónleikana og því þurfti bróðir hans að koma og sækja hann.

Bjarki Sigurðsson fréttamaður tók stöðuna í Bæjarbíói í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í aðdraganda tónleikanna, sem haldnir eru undir merkjum Edrúar, sem er áskorun sem ætlað er að beina athygli fólks að kostum þess að lifa áfengislausum lífsstíl, með því að drekka ekki í febrúarmánuði. 

„Við erum í raun bara að vekja eftirtekt á áfengislausum lífstíl. Við erum ekkert endilega að fókusa á fólk sem er hætt að drekka, heldur bara það að velja heilbrigðan lífsstíl, hluti af því er að nota ekki áfengi,“ sagði Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ.

Ákallar dekkjaskiptameistara

Á tónleikunum spiluðu bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónssynir, en Jón hefur aldrei neytt áfengis.

„Ég náttúrulega þekki hitt ekki, en mér líður mjög vel og hefur liðið vel í gegnum tíðina,“ sagði Jón. Bróðir hans skaut inn í að búast mætti við einhverri snilld á tónleikunum.

Jón sagði þá frá því að á leið á tónleikana, sem haldnir voru í Bæjarbíói í Hafnarfirði, hafi hann sprengt dekk. Því hafi bróðir hans þurft að koma og sækja hann.

„Þannig ef það er einhver að horfa sem er geggjaður að skipta um dekk, þetta er svona sirka við Engidalinn,“ sagði Jón. Friðrik skaut því inn að viðkomandi þyrfti helst að vera að edrú.

Að lokum tóku bræðurnir örlítið tóndæmi fyrir áhorfendur, sem sjá má hér að neðan. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×