Innlent

Hópur fólks finni fyrir þrýstingi um að fara inn í Grinda­vík

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hörður Guðbrandsson er formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur.
Hörður Guðbrandsson er formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur. Vísir/Einar

Tugir mættu til vinnu í Grindavík í dag eftir langt hlé. Á sama tíma er bærinn alveg vatnslaus, en vonir standa til að köldu vatni verði komið á hafnarsvæði bæjarins á morgun. Verkalýðsleiðtogi í Grindavík er gagnrýninn á opnun bæjarins. 

„Þetta virkar á mig eins og geðþóttaákvörðun út í loftið, þetta er ekkert rökstutt. Það er ekkert kalt vatn í bænum, það er ekkert heitt neysluvatn í bænum og það er ekki vitað hvernig holræsakerfið virkar undir álagi. Af þessu ástæðum tel ég þetta bara ekki forsvaranlegt eins og er,“ segir Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur. 

Hann segir að vissulega hafi sumir Grindvíkingar sótt það hart að fá að fara í bæinn til að sinna atvinnustarfsemi. Slík mál þurfi þó að nálgast af skynsemi. 

„Og á grundvelli öryggis og bestu fáanlegu upplýsinga hjá sérfræðingum í jarðfræði.“

Koma þurfi til móts við fólk

Hörður segist þekkja dæmi þess að fólk sé beitt þrýstingi til að mæta til vinnu í bænum, en treysti sér þó ekki til þess í núverandi ástandi.

„Við höfum fengið hóp af fólki, verkalýðsfélögin í Grindavík, til okkar sem treystir sér ekki til að fara inn á þessu svæði,“ segir Hörður. Um tugi fólks sé að ræða. Þó vilji meirihluti fólks mæta til vinnu.

Hann segir nauðsynlegt að koma til móts við þetta fólk sem ekki treysti sér til að starfa í bænum, nú þegar búið er að opna hann.

„Við erum komin með einhvern hóp inn á sjúkrasjóði hjá verkalýðsfélögunum, sem er í það miklu áfalli að þau treysta sér ekki til að fara aftur.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×