Innlent

Átta prósent ung­menna fóru í ljós í fyrra þrátt fyrir bann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hlutfall ungmenna sem fór í ljós var svipað árin 2023 og 2016 en þeim fjölgaði sem notaði bekkina reglulega.
Hlutfall ungmenna sem fór í ljós var svipað árin 2023 og 2016 en þeim fjölgaði sem notaði bekkina reglulega. Getty

Um átta prósent ungmenna á aldrinum 12 til 17 ára notuðu ljósabekk einu sinni eða oftar á árinu 2023. Þetta er svipað hlutfall og árið 2016 en árið 2011 var sett á 18 ára aldurstakmark á notkun ljósabekkja á Íslandi.

Frá þessu er greint á vefsíðu Geislavarna ríkisins.

Þar segir að að hættan á húðkrabbameini sé meiri fyrir börn og unglinga en fullorðna en við framkvæmd könnunarinnar voru ungmennin ekki bara spurð um notkun heldur einnig um tengsl ljósabekkja og húðkrabbameins.

Um 92 prósent ungmennanna sögðust sammála þeirri fullyrðingu að notkun ljósabekkja gæti valdið húðkrabbameini en þeir sem höfðu ekki notað ljósabekki á síðustu tólf mánuðum reyndust meira sammála fullyrðingunni en þeir sem höfðu farið í ljós.

Flest þeirra sem höfðu farið í ljós voru á aldrinum 15 til 17 ára en einungis eitt prósent barna á aldrinum 12 til 14 ára höfðu notað ljósabekk.

Heilt yfir var hlutfallið nokkuð jafnt þegar horft var til kyns.

Þrátt fyrir að hlutfall þeirra sem notaði ljósabekk árið 2023 væri svipað og árið 2016 voru fleiri sem sögðust hafa farið oft. Til dæmis sögðust 0,9 prósent hafa farið vikulega árið 2023, samanborið við 0,3 prósent árið 2016.

Mælingar á ljósabekkjanotkun ungmenna á aldrinum 12 til 17 ára hófust árið 2006. Þá var hlutfall þeirra sem höfðu farið í ljós 29 prósent en er, eins og fyrr segir, átta prósent í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×