Fótbolti

Fleiri á­horf­endur á leikjum í b-deildinni en í leikjum í Bundesligunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Schalke 04 standa á bak við félagið sitt þó það sé nú í fallbaráttu í þýsku b-deildinni.
Stuðningsmenn Schalke 04 standa á bak við félagið sitt þó það sé nú í fallbaráttu í þýsku b-deildinni. Getty/Leon Kuegeler

Helgin var söguleg í þýska fótboltanum og ekki vegna þess sem gerðist inn á vellinum heldur það sem gerðist í áhorfendastúkunum.

Í fyrsta sinn í sögunni komu nefnilega fleiri áhorfendur á leiki í þýsku B-deildinni heldur komu á leikina sem fóru fram í A-deildinni, sjálfri Bundesligunni.

Flestir áhorfendur á einum einstaka leik voru á leik Schalke 04 og Wehen Wiesbaden í b-deildinni en heildartölurnar voru einnig hliðhollar þýsku b-deildinni.

Alls komu 284.643 áhorfendur á leikina níu í b-deildinni en á sama tíma voru bara 261.099 áhorfendur á leikjunum í Bundesligunni.

Alls komu 60.542 manns á Schalke 04 leikinn þar sem heimamenn unnu nauman sigur. Liðið er í fallbaráttu í b-deildinni en það vantar ekki stuðninginn. Leikurinn sem fékk næstbestu aðsóknina var líka b-deildarleikur en 52.652 manns komu á leik Herthu Berlin og Magdeburgar.

Bundesligan átti leikinn með þriðju bestu aðsóknina en fimmtíu þúsund manns komu á leik FC Köln og Werder Bremen.

Þetta var slakast aðsóknin á umferð í Bundesligunni síðan í kórónuveirufaraldrinum.

Það skiptir auðvitað máli að risarnir Bayern München og Borussia Dortmund voru að spila á útivelli og að mörg fornfræg félög spila nú í b-deildinni.

Það eru einnig í gangi mótmæli meðal þýsks knattspyrnuáhugafólks með þau áform forráðamanna þýsku deildarkeppninnar að taka inn nýja utanaðkomandi hluthafa í rekstur þýsku deildarinnar. Tennisboltar og leikfangabílar enduðu inn á vellinum í þessum mótmælum um helgina.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×