Erlent

Dani hafi grætt milljónir á streymissvindli

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Maðurinn græddi rúmar 87 milljónir íslenskra króna á svindlinu.
Maðurinn græddi rúmar 87 milljónir íslenskra króna á svindlinu. Vísir/Getty

Réttað verður yfir 53 ára gömlum dönskum karlmanni í Árósum í dag en honum er gefið að sök að hafa stolið 689 lögum eða hluta úr lögum og dreift þeim undir eigin nafni á streymisveitum líkt og Spotify og Apple Music.

Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins kemur fram að lögin sem maðurinn stal hafi verið spiluð ótal sinnum. Það hafi tryggt manninum 4,3 milljónir danskra króna í höfundarréttargjöld eða því sem nemur rúmum 87 milljónum íslenskra króna.

Ekki er þó talið að raunverulegar hlustanir liggi að baki þessum tölum. Svikin eru sögð hafa átt sér stað frá 2013 til 2019.

Manninum er gefið að sök að hafa brotið gegn höfundarréttarlögum. Hann er grunaður um að hafa stolið lögum frá öðrum listamönnum, breytt þeim lítillega og svo endurútgefið lögin undir eigin nafni.

Tekið er fram í frétt DRK að maðurinn neiti sök. Haft er eftir lögmanni hans sem og forsvarsmönnum danska tónlistariðnaðarins að málið sé einstakt í Danmörku og þótt víðar væri leitað.

Haft er eftir Rasmus Rex, dönskum sérfræðingi í tónlistarbransanum að það séu ýmsar leiðir færar til að ná fram „spilunum“ á lögum á streymisveitum. Ljóst sé miðað við hve lág höfundarréttargjöld almennt séu meðal annars frá Spotify að maðurinn hafi látið spilað lög sín ansi oft.

Til þess séu ýmsar leiðir. Hægt sé að nýta til þess tölvuforrit. Þá sé einnig hægt að nálgast ýmiskonar þjónustu um víða veröld sem tryggi manni slíkar spilanir.

Dómur mun falla í málinu í næstu viku. Er búist við því að málinu verði skotið til hæstaréttar Danmerkur hvernig sem það fer. Rasmus segir ljóst að málið snerti gríðarlega marga enda hafi maðurinn fengið greitt úr sameiginlegum höfundarréttarsjóði Danmerkur og svik hans þannig bitnað á fjölmörgum tónlistarmönnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×