Fótbolti

Gló­dís skoraði þegar Bayern fór á toppinn á ný

Smári Jökull Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði og algjör lykilmaður í liði Bayern.
Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði og algjör lykilmaður í liði Bayern. Vísir/Getty

Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir var á skotskónum hjá stórliði Bayern Munchen í þýsku úrvalsdeildinni í dag.

Bayern tók á móti liði Essen á heimavelli og var Glódís Perla á sínum stað í vörn Bayern. Essen var um miðja þýsku deildina fyrir leikinn en Bayern var í öðru sæti á eftir Wolfsburg og gat farið aftur á toppinn með sigri en Wolfsburg lyfti sér í toppsætið eftir risasigur á Nurnberg í gær.

Bayern var mun sterkari aðilinn í leiknum en tókst ekki að skora í fyrri hálfleiknum. Staðan 0-0 að honum loknum. Það var hins vegar Glódís Perla sem kom Bayern í forystuna á 54. mínútu en hún stökk þá hæst í teignum eftir fyrirgjöf og skoraði með góðum skalla. Frábært mark hjá landsliðsfyrirliðanum.

Glódís var nálægt því að bæta við öðru marki skömmu síðar þegar hún var hársbreidd frá því að ná til boltans eftir svipaða fyrirgjöf og þegar hún skoraði. Bayern tókst hins vegar að bæta öðru marki við þegar Jovana Damnjanovic skoraði á 79. mínútu.

Nokkuð öruggur 2-0 sigur Bayern staðreynd og liðið því komið í toppsætið á nýjan leik. Þetta var fyrsta mark Glódísar Perlu í fjórtán deildarleikjum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×