Fótbolti

Mbappé yfir­gefur PSG í sumar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappé er á förum frá PSG.
Kylian Mbappé er á förum frá PSG. Jose Breton/Pics Action/NurPhoto via Getty Images

Franski framherjin Kylian Mbappé hefur tjáð forráðamönnum Paris Saint-Germain að hann muni yfirgefa félagið þegar samningur hans rennur út í sumar.

Þessi 25 ára gamli franski landsliðsmaður er samningsbundinn PSG út yfirstandandi tímabil, en eins og síðustu ár hefur hann verið sterklega orðaður við spænska stórveldið Real Madrid.

Hann var einnig orðaður við Real Madrid síðasta sumar og um tíma leit út fyrir að hann væri tilbúinn að fórna miklu til að koma sér frá PSG yfir til Spánar. Á einum tímapunkti var Mbappé, sem af mörgum er talinn einn besti knattspyrnumaður heims, tekinn úr leikmannahópi PSG og hann skilinn eftir á meðan liðið fór í æfingaferð um Asíu.

Mbappé og PSG komust hins vegar að lokum að samkomulagi um það að hann yrði áfram hjá félaginu og að félagið myndi ekki tapa á því þegar hann myndi að lokum leita á ný mið.

Samningur Mbappé felur því í sér möguleika á árs framlengingu og því er búist við að annað hvort þurfi annað lið að greiða fyrir leikmanninn, eða að hann sjálfur þurfi að fórna ákveðinni upphæð til að losna frá PSG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×