Innlent

Nýr Landspítali tekur á sig mynd

Bjarki Sigurðsson skrifar
Vegfarendur á ferð í kringum meðferðarkjarna Nýja Landspítalans hafa líklegast tekið eftir því að útveggjum sem settir hafa verið á sinn stað fjölgar ört.
Vegfarendur á ferð í kringum meðferðarkjarna Nýja Landspítalans hafa líklegast tekið eftir því að útveggjum sem settir hafa verið á sinn stað fjölgar ört. Vísir/Vilhelm

Vinna við það að reisa nýja Landspítalann er í fullum gangi, líkt og hún hefur verið síðustu misseri. Unnið er að því að setja útveggina utan á húsnæði meðferðarkjarna og fljótlega verður hafist handa við setja niður lagnir í gólfum inni í húsinu og frágang á þaki.

„Það er verið að ljúka á þessu ári uppsteypu og frágangi á bílastæði og tæknihúsinu. Svo erum við byrjaðir uppsteypu á rannsóknarhúsinu og erum að fara að bjóða út uppsteypu á húsi heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands,“ segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri verkefnisins um nýja Landspítalann. 

Uppsteypu meðferðarkjarnans er nærri lokið og þá stendur jarðvinna yfir við uppbyggingu við Grensásspítala en þar verður reist 4.400 fermetra hús. Einnig er í gangi útboð vegna legudeildar á Akureyri. 

Frá framkvæmdum í dag.Vísir/Vilhelm

„Það gengur allt samkvæmt tímaáætlun og við vonumst til að halda því áfram. Þar samt alltaf fyrirvari um heimildir og þátttöku í útboðum,“ segir Gunnar. 

Litháenska verktakafyrirtækið Staticus vinnur við að raða útveggjaeiningunum utan um burðarvirki meðferðarkjarnans en hversu hratt hægt er að vinna verkið fer alfarið eftir veðri. 

„Þegar uppsetningin verður komin á fullan skrið má búast við að allt að því hundrað útveggjaeiningar fari upp í hverri viku. Í síðustu viku voru settar upp áttatíu einingar og hver eining er 1,3 metrar á breidd og rúmlega fjórir metrar á hæð,” er haft eftir Ásbirni Jónssyni, sviðsstjóra framkvæmdasviðs Nýja Landspítalans, í tilkynningu á vef þeirra. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×