Fótbolti

Ráð­leggja sam­bandinu að reka Klins­mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allt lítur út fyrir að framtíð Jürgen Klinsmann sem þjálfara suður-kóreska landsliðsins sé ráðin.
Allt lítur út fyrir að framtíð Jürgen Klinsmann sem þjálfara suður-kóreska landsliðsins sé ráðin. AP/Thanassis Stavrakis

Sérstök ráðgjafanefnd hefur ráðlagt suður-kóreska knattspyrnusambandinu að reka landsliðsþjálfarann Jürgen Klinsmann.

Suður-kóreska landsliðið datt út í undanúrslitum í Asíukeppninni eftir 2-0 tap á móti Jórdaníu. Jórdanía tapaði síðan fyrir Katar í úrslitaleiknum. Suður-Kórea hefur ekki orðið Asíumeistari í 64 ár eða síðan 1960. Liðið komst síðast í úrslitaleik keppninnar fyrir níu árum.

Klinsmann tók við landsliði Suður-Kóreu fyrir aðeins ári síðan. Hann er með samning fram yfir heimsmeistaramótið árið 2026.

Fréttir frá Suður-Kóreu herma að allt bendi til þess að Klinsmann verði rekinn. Ástæður eru margar þar á meðal slök frammistaða í Asíukeppninni.

Það hefur líka verið mikil ólga í leikmannahópnum en leikmennirnir Son Heung-min og Lee Kang-in lentu saman eftir að liðið datt úr leik.

Klinsmann varð bæði heimsmeistari og Evrópumeistari með Þýskalandi á sínum tíma.

Hann hætti að spila árið 2004 og tók fljótlega við þýska landsliðinu sem hann stýrði á HM á heimavelli árið 2006. Liðið vann bronsið undir hans stjórn en hann hætti með landsliðið tveimur árum síðar og aðstoðarmaður hans Joachim Löw tók við.

Klinsmann þjálfaði líka bandaríska landsliðið í fimm ár og var þjálfari þess þegar Aron Jóhannsson valdi bandaríska landsliðið yfir það íslenska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×