Fótbolti

Létt leið fyrir Bæjara í bikarnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Glódís Perla leiddi Bayern Munchen í átta liða úrslitin.
Glódís Perla leiddi Bayern Munchen í átta liða úrslitin. Catherine Steenkeste/Getty Images

Glódís Perla Viggósdóttir stóð vaktina í vörn Bayern München og hélt hreinu þegar liðið vann Kickers Offenbach 6-0 á útivelli í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar. 

Kickers Offenbach var aldrei líklegt til sigurs gegn stórveldinu, liðið er áhugamannalið í svæðisdeild suðvesturhluta Þýskalands (Regionalliga Südwest), ein af fimm deildum á fjórða efsta stigi fótboltans þar í landi. 

Jovana Damjanovic og Sydney Lohmann skoruðu fyrri tvö mörk Bæjara með stuttu millibili um miðjan fyrri hálfleik. Þá varð hlé á markaskorun áður en Jill Baijings, Alara Sehitler og Pernille Harder, sem skoraði tvö, röðuðu fjórum mörkum inn undir lok leiks. Þetta var sjötti leikur Bayern í röð án taps og þriðji sigurleikurinn í röð. 

Bayern München heldur áfram í 8-liða úrslit bikarkeppninnar og mætir FC Carl Zeiss Jena í næstu umferð. Það lið leikur einnig í einni af fimm deildum á fjórða efsta stigi fótboltans, svæðisdeild norðausturhluta Þýskalands (Regionalliga Nordost).

Auk þeirra mætast Frankfurt og Duisburg, SGS Essen og Bayer Leverkusen, Hoffenheim og Wolfsburg, í 8-liða úrslitum. Öll ofantöld lið leika í þýsku úrvalsdeildinni og Bæjarar mega því telja sig heppna með andstæðinga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×