Innlent

Katrín segir far­sælast að orku­fyrir­tæki séu í al­manna­eign

Heimir Már Pétursson skrifar
Tómas Már Sigurðsson forstjóri HS Orku skýrir framkvæmdir út fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í gær.
Tómas Már Sigurðsson forstjóri HS Orku skýrir framkvæmdir út fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í gær. Stöð 2/Einar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur farsælast að allir orkuinnviðir séu í almanna eigu. Hún gaf Alþingi munnlega skýrslu um áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum í dag.

Katrín tók sérstaklega fram í umræðunni að hún hefði hitt forystufólk og starfsfólk bæði HS Orku og HS Veitna á ferð sinni um Reykjanes í gær. Samskipti hennar við það fólk hefði alla tíð hafa verið til mikillar fyrirmyndar.

Unnin hefðu verið stórvirki á undanförnum dögum til að koma köldu og heitu vatni til íbúa Reykjaness og tryggja raforkuöryggi.

Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar spurði Katrínu hins vegar að því hvort það væri til travala að HS Orka væri í einkaeigu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur farsælast að orkufyrirtæki séu öll í almannaeigu.Stöð 2/Einar

Forsætisráðherra sagði ekki nokkurn vafa á því að forystufólk og starfsfólk bæði HS Orku og HS Veitna hefði verið að leggja sig allt fram á undanförnum dögum og vikum til að gera sem best í þágu íbúa á svæðinu.

„Það breytir því hins vegar ekki að hér er um gríðarlega mikilvæga innviði að ræða, orkuinnviði. Það er mín eindregna skoðun, og ég tel að þessir atburðir endurspegli það, að það fer langbest á því að slíkir innviðir séu í almannaeigu. Hvort sem það er veitukerfið eða orkuframleiðslan. Þetta er risastórt öryggismál þar sem skiptir miklu máli að það séu einmitt aldrei neinir aðrir hagsmunir undir en öryggi íbúa. Það á auðvitað að vera stóra verkefnið. Þar með kasta ég engri rýrð á þetta ágæta starfsfólk og forystufólk,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.


Tengdar fréttir

Kraftaverk við hitaveitulögnina

Íbúar á Reykjanesi ættu allir að vera komnir aftur með heitt vatn á ný í síðasta lagi í nótt. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir að um kraftaverk sé að ræða en fjörutíu pípulagningamenn eru í viðbragðsstöðu í kvöld.

Fólk búið undir alls konar vendingar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Svartsengi í dag og bar nýja hitaveitulögn augum. Hún segir þrekvirki hafa verið unnið á staðnum. Mikilvægt sé að byrja að líta til framtíðar og huga að náttúruvá í framtíðarskipulagi.

Spáir næsta gosi 1. mars

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir líklegt að næsta eldgos á Reykjanesskaga verði í kringum 1. mars. Útlit sé fyrir að sama mynstur og hefur verið ríkjandi muni endurtaka sig. Þó geti jarðskjálfti eða annar atburður alltaf breytt stöðunni. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×