Fótbolti

Ólympíudyrnar opnar fyrir Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með heimsbikarinn eftir sigur Argentínu á HM í Katar 2022.
Lionel Messi með heimsbikarinn eftir sigur Argentínu á HM í Katar 2022. Getty/Hernan Cortez

Lionel Messi ræður því sjálfur hvort að hann spili með Argentínu á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Javier Mascherano, fyrrum liðsfélagi hans hjá argentínska landsliðinu og Barcelona, er þjálfari Ólympíuliðs Argentínu. Liðið tryggði sér sæti á ÓL um helgina en Brasilíumenn sátu eftir með sárt ennið.

„Það þekkja allir samband mitt við Leo og vináttu okkar,“ sagði Mascherano.

„Dyrnar eru alltaf opnar fyrir leikmann eins og hann til að spila með okkur á Ólympíuleikunum. Þetta mun bara ráðast á honum sjálfum og hans skuldbindingu,“ sagði Mascherano.

Messi og Mascherano urðu Ólympíumeistarar saman á Ólympíuleikunum í Peking 2008 en Mascherano vann líka gull fórum árum fyrr í Aþenu.

Thiago Almada, leikmaður 23 ára liðs Argentínu, er spenntur fyrir möguleikanum á því að spila með Messi á ÓL í París.

„Ég vona að hann hafi löngunina til að vera með. Við þurfum að bíða og sjá hver staðan er á honum þá. Það væri algjör draumur ef hann myndi spila með okkur,“ sagði Almada.

Messi hefur áður talað um að vera með í Suðurameríkukeppninni sem fer fram í Bandaríkjunum í sumar. Henni lýkur 14. júlí eða aðeins tveimur vikum áður en Ólympíuleikarnir hefjast í París.

Messi varð heimsmeistari með argentínska landsliðinu á HM í Katar í lok ársins 2022 og gat þá ekki hugsað sér að hætta að spila með landsliðinu því það var svo gaman.

Það væri samt mikið að taka þátt í tveimur stórmótum sama sumar en margir Argentínumenn lifa í voninni með að sjá sem mest af honum í argentínska landsliðsbúningnum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×