Fótbolti

Liðsrúta Real Madrid lenti í á­rekstri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Real Madrid liðið þurfti að ferðast óvenju langa leið vegna verkfalla í Þýskalandi.
Real Madrid liðið þurfti að ferðast óvenju langa leið vegna verkfalla í Þýskalandi. Getty/Marcos del Mazo

Real Madrid liðið er komið til Þýskalands þar sem spænska liðið spilar fyrri leik sinn í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Ferðalagið gekk þó ekki alveg slysalaust fyrir sig.

Liðsrúta Real Madrid, sem stórstjörnum liðsins, lenti nefnilegi í óhappi á leið sinni til Leipzig þar sem leikurinn fer fram í kvöld.

Rútan lenti þar í árekstri við hvítan Toyota á A4 hraðbrautinni á milli borganna Eichelborn og Hora.

Þýska blaðið Bild segir frá óhappinu og að rútan hafi haldið leið sinni áfram eftir stutt stopp þar sem menn fullvissuðu sig um að rútan væri ökuhæf og allir ómeiddir í henni.

Svo var og hélt því leið Real Madrid áfram. Toyota bíllinn var aftur á móti talsvert skemmdur.

Spænska blaðið Marca hefur heimildir fyrir því að slysið hafi orðið vegna þess að aðdáandi var að mynda rútuna með símanum en missti fyrir vikið stjórn á bílnum sínum.

Ferðalagið var aðeins flóknara en það hefði þurft að vera. Spænska liðið þurfti að lenda í Erfurt og keyra þaðan 160 kílómetra leið á áfangastað. Ástæðan voru verkföll á flugvellinum í Leipzig.

Þetta er fyrri leikur liðanna í sextán liða úrslitum en sá síðari fer fram 6. mars næstkomandi.

Leikur RB Leipzig og Real Madrid fer fram í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir Meistaradeildarleiki kvöldsins byrjar á klukkan 19.25 á sömu stöð en sjálfur leikurinn byrjar klukkan 20.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×