Innlent

Sjálf­stæðis­menn í Grinda­vík vilja rýmri aðgengisreglur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Grindavík.
Frá Grindavík. Vísir/Arnar

Sjálfstæðisfélag Grindavíkur skorar á ríkisstjórnina að rýmka reglur um aðgengi íbúa að eignum sínum í Grindavík. Þetta kemur fram í ályktun félagsins.

Aðgengi að bænum hefur verið takmarkað frá því að hann var rýmdur í aðgerðum almannavarna 10. nóvember síðastliðinn. Síðast var íbúum hleypt í bæinn í hollum að ná í verðmæti en eldgos hefur komið upp við bæinn í tvígang, í janúar og febrúar.

Í ályktun Sjálfstæðisfélags Grindavíkur segir að eðlilegast væri að opna aðgengi alla daga frá morgni til kvölds. Fasteignaeigendur ættu að hafa frjálst val um hvenær þau fari til Grindavíkur.

Auk íbúa telur félagið að fyrirtæki, stór og smá ættu að hafa frjálsan aðgang á þessum tíma til að vitja eigna, bjarga verðmætum og stunda atvinnurekstur þar sem öryggiskröfur eru uppfylltar. Þeir einstaklingar og fyrirtæki sem geti og vilji aðlaga sig að aðstæðum eigi að fá frelsi til þess.

„Við skorum á Almannavarnir Ríkisins að lágmarka lokun og tengja lokanir Grindavíkurbæjar eingöngu við náttúruvá innan byggðarinnar eða við flóttaleiðir,“ segir í ályktuninni.

„Ástandið er ekki lengur neyðarviðbragð heldur langvarandi atburður og eru fyrirtæki nú komin að þolmörkum og þurfa þau að hefja verðmætasköpun í stað verðmætabjörgunar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×