Fótbolti

Fyrsta mark Selmu Sólar þrumu­fleygur af löngu færi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Selma gekk til liðs við Nürnberg í janúar og skoraði fyrsta markið fyrir félagið í dag
Selma gekk til liðs við Nürnberg í janúar og skoraði fyrsta markið fyrir félagið í dag fcn.de

Selma Sól Magnúsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í þýsku úrvalsdeildinni fyrir 1. FC Nürnberg í 1-2 tapi gegn Bayer Leverkusen. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lagði upp bæði mörk Leverkusen. 

Þetta var þriðji leikur Selmu eftir að hún gekk til liðs við Nürnberg frá Rosenborg í Noregi núna í janúar. 

Miðvörðurinn Melissa Friedrich kom gestunum yfir í fyrri hálfleik eftir frábæra fyrirgjöf frá Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur. Selma jafnaði metin strax í upphafi seinni hálfleiks með þrumuskoti fyrir utan teig eftir stutt þríhyrningsspil við liðsfélaga sinn á miðjunni Franzisku Mai. 

Því miður dugði það ekki til að sækja stig en hinn miðvörður Bayer Leverkusen, Emilie Bragstad, skoraði sigurmark leiksins á 59. mínútu, aftur eftir fyrirgjöf frá Karólínu Leu. 

Leverkusen fór með þessum sigri upp í 6. sæti deildarinnar og jafnaði Werder, sem situr í 5. sætinu, að stigum. 

1. FC Nürnberg er í næstneðsta sæti deildarinnar með 8 stig, tveimur stigum frá Leipzig og Köln í sætunum fyrir ofan. Duisburg, lið Ingibjargar Sigurðardóttur, situr í neðsta sæti með 3 stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×