Fótbolti

Mascherano kom í veg fyrir að fót­bolta­lið Brasilíu kæmist á ÓL í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Javier Mascherano er þjálfari argentínska landsliðsins sem er komið inn á Ólympíuleikana.
 Javier Mascherano er þjálfari argentínska landsliðsins sem er komið inn á Ólympíuleikana. Getty/Buda Mendes

Argentína tryggði sér um helgina sæti í fótboltakeppni Ólympíuleikanna í París í sumar en það kom á kostnað nágrannanna og erkifjendanna í Brasilíu.

Argentína vann 1-0 sigur á Brasilíu þökk sé marki frá Luciano Gondou á 77. mínútu.

Argentína vann forkeppni Ólympíuleikanna en það verða Paragvæjar sem fylgja þeim á leikana.

Javier Mascherano, fyrrum leikmaður Liverpool og Barcelona, er þjálfari argentínska Ólympíulandsliðsins. Hann tók við liðinu árið 2021.

Brasilíska landsliðið tókst aðeins að vinna Venesúela í undankeppninni og fær því ekki tækifæri til að verja Ólympíugullið sem Brasilíumenn unnu í Tókýó.

Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2004 sem Brasilíumenn verða ekki með karlalið í fótboltakeppni Ólympíuleikanna.

Argentínumenn urðu Ólympíumeistarar bæði 2004 og 2008. Á seinni leikunum í Peking í Kína var Lionel Messi í liðinu og spilaði þar við hlið Mascherano. Það hefur verið einhver orðrómur um það að Messi hafi áhuga á því að spila með liðinu á leikunum.

Mascherano hefur orðið tvisvar sinnum Ólympíumeistari sem leikmaður og getur nú unnið gullið sem þjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×