Fótbolti

Bláu spjöldin muni rústa leiknum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ange Postecoglou hefur nokkrum sinnum fengið að líta gula spjaldið á leiktíðinni fyrir kjaftbrúk. Hann skilur ekki af hverju ætti að þurfa að bæta enn einu spjaldinu við.
Ange Postecoglou hefur nokkrum sinnum fengið að líta gula spjaldið á leiktíðinni fyrir kjaftbrúk. Hann skilur ekki af hverju ætti að þurfa að bæta enn einu spjaldinu við. Ryan Pierse/Getty Images

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Tottenham, er ekki hrifinn af þeirri hugmynd að taka upp notkun blárra spjalda í deildinni á næstunni.

Alþjóðlega knattspyrnuráðið IFAB kynnti hugmyndir sínar um bláu spjöldin, en verði hugmyndin að veruleika munu leikmenn sem fá blá spjöld í leik þurfa að fara í kælingu í tíu mínútur utan vallar. Leikmenn geta þá nælt sér í blátt spjald fyrir kjaftbrúk eða taktísk brot í staðin fyrir gult fyrir slík athæfi.

 Ange Postecoglou, þjálfari Tottenham, er eins og fjölmargir aðrir ekki hrifinn af þessari mögulegu breytingu.

„Hvað gerir það að bæta einu spjaldi enn við? Úrræði við þessum brotum eru til,“ sagði Postecoglou.

„Ef það er ekki verið að beita þessum úrræðum til að fá þær niðurstöður sem fólk vill, gerið það þá. Það er breytingin sem ætti að vera að gera. Það að annað liðið sé manni færri í tíu mínútur, vitið þið hvað það mun gera við leikinn okkar? Það mun rústa honum.“

„Þá ertu með eitt lið sem er að reyna að tefja í tíu mínútur að bíða eftir að fá mann inn á. Flestar aðrar íþróttir eru að reyna gera leikinn hraðari og ég skil ekki af hverju við erum að fara í hina áttina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×