Innlent

Sveita­strákurinn Baldur aftur orðaður við for­­seta­­stól átta árum síðar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Baldur Þórhallsson er stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson er stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands. Vísir/Vilhelm

Stjórnmálafræðingurinn Baldur Þórhallsson veit ekki hver kom nafni hans inn í könnun Maskínu um mögulega forsetaframbjóðendur. Honum finnst það skrítið að vera orðaður við framboð og segir söguna vera að endurtaka sig átta árum síðar. Hann er ekki byrjaður að íhuga framboð.

Viðskiptablaðið greindi í dag frá því að svarendur í nýrri könnun Maskínu væru beðnir um að taka afstöðu gagnvart því að Baldur verði næsti forseti Íslands.

Ekki byrjaður að íhuga framboð

Í samtali við fréttastofu segist Baldur ekki vita hver hefur komið nafni hans inn í könnunina en hann er ekki byrjaður að íhuga framboð. 

„Ég er bara svo mikill sveitastrákur í mér að ég er bara feiminn gagnvart þessu. Mér finnst þetta bara dálítið skrítið. Svo ég tali hreint út,“ segir Baldur. 

Sagan endurtekur sig

Fyrir átta árum síðan, þegar Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti að hann hygðist ekki halda áfram sem forseti, var Baldur einnig bendlaður við framboð. Þá greiddi einhver fyrir það að Gallup myndi spyrjast fyrir um skoðanir fólks á mögulegu framboði hans. Líkt og sjá má í fréttinni hér fyrir neðan frá árinu 2016, kom Baldur einnig af fjöllum þá.

Baldur hefur síðan þá komist að því hver bar ábyrgð á því að nafn hans var sett í könnunina árið 2016 en veit ekki hvort sami aðili hafi gert slíkt hið sama nú. 

„Okkur stjórnmálafræðingum er mjög illa við að giska. Ég vissi eftir á hver gerði það fyrir átta árum. Það var kynnt fyrir okkur. Það var gerð könnun að okkur forspurðum og svo var hún kynnt fyrir okkur,“ segir Baldur. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×