Skotinn magnaði hetja United á Villa Park

Smári Jökull Jónsson skrifar
Markaskorararnir Scott McTominay og Rasmus Höjlund fagna sigurmarki þess fyrrnefnda.
Markaskorararnir Scott McTominay og Rasmus Höjlund fagna sigurmarki þess fyrrnefnda. Vísir/Getty

Scott McTominay var hetja Manchester United sem vann frábæran útisigur á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag. Skotinn knái skoraði sigurmark United eftir að hafa komið inn sem varamaður.

Liðin voru hlið við hlið í töflunni í 5. og 6. sæti en Villa þó átta stigum á undan liði United.

Manchester United komst yfir á 17. mínútu og auðvitað var það danski framherjinn Rasmus Höjlund sem skoraði en þetta var hans fimmta mark í síðustu fimm úrvalsdeildarleikjum.

Stuttu seinna varði Andre Onana vel í marki United þegar John McGinn átti gott skot og aftur skömmu síðar þegar Ollie Watkins var í góðu færi. Villa fékk fleiri færi í fyrri hálfleiknum en framlína United var ógnandi og gestirnir fóru inni hálfleikinn með 1-0 forystu.

Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega. Marcus Rashford fékk gott færi sem hann fór illa með og Onana kom United enn á ný til bjargar þegar hann varði frá Watkins í dauðafæri.

Á 67. mínútu kom síðan jöfnunarmarkið. Það skoraði Douglas Luiz þegar boltinn datt fyrir hann eftir darraðadans í teignum.

Eftir jöfnunarmarkið voru leikmenn Aston Villa líklegri til að taka forystuna en gestirnir. Alejandro Garnacho átti reyndar skot sem sleikti stöngina á marki Villa en heimaliðið átti fleiri tækifæri sem þeir nýttu ekki.

Það var hins vegar varamaðurinn Scott McTominay sem reyndist hetja Manchester United. Diogo Dalot átti þá frábæra fyrirgjöf sem McTominay skallaði í netið eftir að hafa aðeins verið inni á vellinum í rúmar tíu mínútur. Þetta er sjöunda mark McTominay á tímabilinu sem og ekki í fyrsta sinn sem Skotinn kemur lærisveinum Erik Ten Hag til bjargar.

Lokatölur 2-1 og þetta er sjötti leikur United í röð í öllum keppnum án taps. United er komið upp í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar og er fimm stigum á eftir Aston Villa sem er í fimmta sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira