Erlent

Sár á­rásar­mannsins gætu reynst ban­væn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ezedi var árið 2018 ákærður fyrir kynferðisbrot.
Ezedi var árið 2018 ákærður fyrir kynferðisbrot. Met Police

Maðurinn sem skvetti sýru framan í 31 árs gamla konu og tvær dætur hennar í Lundúnum síðasta miðvikudag áður en hann lagði á flótta, er enn ófundinn. Sár hans gætu að sögn lögreglu reynst banvæn komist hann ekki undir læknishendur. 

Ekki hefur spurst til hins 35 ára Abdul Ezedi frá kvöldi miðvikudagsins 31. janúar eftir að hann réðst að konunni og tveimur dætrum hennar, með sýru. Konan er samkvæmt heimildum Sky fyrrverandi kærasta hans. Rannsóknarlögregla í Lundúnum rannsakar árásina sem tilraun til manndráps. 

Efnin sem Ezedi notaði voru svo sterk að fólk sem kom að mæðgunum varð einnig fyrir áverkum en alls særðust tólf í árásinni. Móðirin liggur enn á sjúkrahúsi og getur samkvæmt upplýsingum frá lögreglu ekki talað sökum áverka. 

Ezedi hlaut að auki áverka. Eins og sjá má á mynd af öryggismyndavél hér að ofan er hann með áverka í andliti, það hefur ekki komið fram hvort þeir tengist árásinni eða séu eldri. Lögreglan í Lundunum segir áverka hans geta reynst banvæn komist hann ekki undir læknishendur. 

Þá hefur lögregla auglýst fundarlaun upp á tuttugu þúsund pund, tæplega 3,5 milljónir króna, til hvers sem getur veitt upplýsingar um ferðir Ezedi.


Tengdar fréttir

Leita enn að manninum sem skvetti sýrunni

Breska lögreglan fór inn í og rannsakaði fimm byggingar í leit sinni að Abdul Ezedi, sem skvetti sýru á konu og tvær dætur hennar á miðvikudag. Ekki hefur sést til mannsins síðan á miðvikudagskvöld og liggur móðirin þungt haldin.

Móðurinni haldið sofandi

Móðurinni sem varð fyrir því að sýru var skvett framan í hana í London á miðvikudagskvöld er haldið sofandi. Hún er alvarlega slösuð. Dætur hennar tvær sem einnig urðu fyrir árásinni eru ekki eins hætt komnar.

Leita manns sem skvetti eiturefnum framan í mæðgur

Lögreglan í London leitar árásarmanns sem talinn er hafa skvett eiturefnum framan í 31 árs gamla konu og tvær dætur hennar, átta og þriggja ára, í suðurhluta borgarinnar í gærkvöldi. Fólk sem kom konunni til aðstoðar hlaut brunasár í kjölfarið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×