Fótbolti

Stór­stjarnan með maga­kveisu daginn fyrir undan­úr­slita­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Osimhen er veikur og gæti misst af undanúrslitaleiknum annað kvöld.
Victor Osimhen er veikur og gæti misst af undanúrslitaleiknum annað kvöld. Getty/Ulrik Pedersen

Nígeríumenn hafa miklar áhyggjur af aðalstjörnu liðsins þegar liðið er aðeins einum leik frá því að komast í úrslitaleik Afríkukeppninnar í knattspyrnu.

Nígeríska landsliðið mætir Suður-Afríku í undanúrslitaleiknum á morgun en gæti þurft að spila leikinn án Victor Osimhen.

Osimhen var valinn besti knattspyrnumaður Afríku á síðasta ári eftir að hafa hjálpað Napoli að verða ítalskur meistari í fyrsta sinn í meira en þrjá áratugi. Hann varð markakóngur Seríu A með 26 mörk.

Framherjinn glímir nú við skæða magakveisu og á það á hættu að missa af leiknum mikilvæga.

Osimhen varð eftir í borginni Abidjan ásamt starfsmönnum nígeríska sambandsins en liðið ferðaðist aftur á móti til Bouaké þar sem leikurinn fer fram.

Sigurvegarinn mætir annað hvort Fílabeinsströndinni eða Kongó sem mætast í hinum undanúrslitaleiknum.

Osimhen hefur reyndar bara skorað eitt mark í keppninni til þessa en Ademola Lookman, leikmaður Atalanta, hefur skorað öll þrjú mörk liðsins í útsláttarkeppninni.

Nígería hefur ekki komist í úrslitaleik Afríkukeppninnar í áratug eða síðan Nígeríumenn unnu keppnina árið 2013. Þeir urði einnig Afríkumeistarar 1980 og 1994 en hafa alls komist sjö sinnum í úrslitaleik keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×