Innlent

Ekki lengur á Ís­landi til að svara fyrir of­beldi gegn konum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karlmaðurinn var dæmdur fyrir brot í Reykjavík árin 2021 og 2022. Hann virðist hafa farið til Póllands fyrir einhverju síðan.
Karlmaðurinn var dæmdur fyrir brot í Reykjavík árin 2021 og 2022. Hann virðist hafa farið til Póllands fyrir einhverju síðan. Unsplash/Benjamin R.

Karlmaður frá Póllandi var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir líkamsárás gegn tveimur konum og hótunarbrot. Önnur konan er jafngömul manninum en hin tuttugu árum eldri. Maðurinn var ekki viðstaddur meðferð málsins.

Ekki tókst að birta manninum ákæruna og var hún því birt í Lögbirtingarblaðinu lögum samkvæmt. Þar kom fram að hann væri pólskur ríkisborgari og talinn staddur einhvers staðar í Póllandi.

Þá kom fram að konurnar tvær, brotaþolarnir í málinu, væru sömuleiðis pólskar en upplýsingar um tengsl mannsins við konurnar koma ekki fram í dómnum. Þó var maðurinn ekki ákærður fyrir brot í nánu sambandi.

Hann var ákærður fyrir líkamsárás og hótun með því að hafa í desember árið 2021, að heimili í Reykjavík, veist með ofbeldi að konu, sem er jafngömul manninum, rifið í hár hennar og dregið niður steyptar tröppur, sparkað í hana, slegið nokkrum sinnum í hana og tekið hana hálstaki, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut marbletti í andliti, hægri framhandlegg, vinstra hné, vinstri mjöðm og vinstri rist auk þess sem hún var bólgin og aum í nefbeini og hægri hluta kjálka og hafa jafnframt hótað henni að taka rakvél og raka af henni hárið og með því vakið hjá henni ótta um heilbrigði og velferð hennar.

Brennisteinssýrusmitaðir vettlingar

Þá var maðurinn ákærður fyrir líkamsárás í apríl í fyrra, með því að hafa veist með ofbeldi að konunni, rifið í bol hennar þannig að hún skall með höfuðið í glugga, gripið í báða framhandleggi hennar og klórað hægri framhandlegg hennar með nögl sinni, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut kúlu og mar á enni og skrámu á hægri framhandlegg.

Þá var hann ákærður fyrir líkamsárás, á sama stað og stund, gegn annarri konu, sem er tuttugu árum eldri en hin, með því að hafa veist að henni með ofbeldi, gripið um handleggi hennar klæddur brennisteinssýrusmituðum vettlingum, með þeim afleiðingum að hún hlaut fyrsta og annars stigs brunasár á báðum handleggjum.

Loks var hann ákærður fyrir hótunarbrot, með því að hafa á sama stað og stund, hótað konunum báðum lífláti og talið niður sekúndurnar uns þær myndu deyja og með því vakið hjá þeim ótta um líf, heilbrigði og velferð þeirra beggja.

Var maðurinn sakfelldur í öllum ákæruliðum og dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×