Innlent

Verð­mæta­björgun í líf­línu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Úr myndbandi Rakelar Lilju. Til hægri má sjá skemmdir í flísum á baðherbergi hennar.
Úr myndbandi Rakelar Lilju. Til hægri má sjá skemmdir í flísum á baðherbergi hennar.

Jörð heldur áfram að gliðna í Grindavík og frekari skemmdir að verða á húsum í bænum. Fimmtíu starfsmönnum fyrirtækis í Grindavík var sagt upp vegna hamfaranna. Eldgos gæti hafist á næstu vikum eða jafnvel dögum. 

Lítil skjálftavirkni mældist í kringum Grindavík í dag eftir tvo stærri skjálfta í nótt. Stærri skjálftinn mældist þrír komma þrír að stærð en sá minni tveir komma sex.

Þrátt fyrir takmarkaða skjálftavirkni er enn hreyfing á sprungum innan bæjarins, sem liggja meðal annars undir húsum. Því eru enn að verða meiri skemmdir á húsum innan bæjarins.

Eitt þeirra húsa er í eigu Rakelar Lilju Halldórsdóttur en jörðin þar undir gliðnar og gliðnar. Í vikunni birti hún myndband á samfélagsmiðlum af sér þurfa að vera í líflínu til þess að sinna verðmætabjörgun heima hjá sér.

Þá eru hamfarirnar farnar að bíta enn meira á atvinnustarfsemi í Grindavík. Um mánaðamótin var tæplega fimmtíu starfsmönnum sagt upp hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Stakkavík. Húsnæði fyrirtækisins varð fyrir miklum skemmdum og var úrskurðað ónýtt.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Veðurstofu Íslands eru auknar líkur á eldgosi enn kvika heldur áfram að flæða inn í kvikuhólfið við Svartsengi.

Ekki er hægt að segja til um hvort kvika muni koma upp á yfirborðið á næstu dögum eða næstu vikum. Komi hún upp er líklegast að það verði við miðbik Sundhnúksgíga eða við jaðrana í átt að Grindavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×