Erlent

Leita manns sem skvetti eitur­efnum framan í mæðgur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Svo virðist vera sem konan og dætur hennar hafi verið í bílnum þegar árásin átti sér stað.
Svo virðist vera sem konan og dætur hennar hafi verið í bílnum þegar árásin átti sér stað. James Weech/PA via AP

Lögreglan í London leitar árásarmanns sem talinn er hafa skvett eiturefnum framan í 31 árs gamla konu og tvær dætur hennar, átta og þriggja ára, í suðurhluta borgarinnar í gærkvöldi. Fólk sem kom konunni til aðstoðar hlaut brunasár í kjölfarið.

Árásin átti sér stað í Clapham hverfi í borginni, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian um málið. Móðirin er sögð illa slösuð eftir árásina og sögð hafa hlotið varanlega áverka. Þá er átta ára gömul dóttir hennar einnig sögð hafa slasast í árásinni.

Lögregla nafngreindi manninn síðdegis í dag. Hann heitir Abdul Ezedi og er 35 ára gamall. Hann er sagður hafa áverka hægra megin í andliti og eru almennir borgarar hvattir til að hringja í neyðarlínuna verði þeir hans varir.

Sky fréttastofan hefur meðal annars birt myndband af vettvangi árásarinnar.

Lögregla telur Abdul hafa þekkt konuna. Vitni hafa lýst ljótri aðkomu að vettvangi árásarinnar en þrjár konur og einn karlmaður sem komu mæðgunum til aðstoðar hlutu minniháttar brunasár. Virðist vera sem konan og dætur hennar hafi setið í bíl þegar árásin varð.

Þá lýsir maður því að hann hafi séð árásarmanninn taka þriggja ára dóttur konunnar upp og kastað henni á jörðina í tvígang. Hann segist hafa reynt að elta manninn uppi án árangurs. Hann hafi í fyrstu ætlað að flýja vettvang á bíl, sem hann hafi klesst á annan kyrrstæðan bíl og því að lokum flúið vettvanginn á hlaupum.

Árásin hefur vakið mikla athygli í Bretlandi. Sadiq Khan, borgarstjóri London, hefur meðal annars fordæmt árásina. Breska lögregla biðlar til fólks sem upplýsingar gæti haft um árásina að hafa samband.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×