Fótbolti

Segir Spánardaður Tuchels skammar­legt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Tuchel er ekki allra.
Thomas Tuchel er ekki allra. getty/DeFodi Images

Didi Hamann, fyrrverandi leikmaður Bayern München, segir daður knattspyrnustjóra þýsku meistaranna, Thomas Tuchel, við spænska boltann vera skammarlegt.

Á stuðningsmannakvöldi í gær svaraði Tuchel því játandi hvort hann sæi sjálfan sig þjálfa á Spáni einn daginn. Á laugardaginn tilkynnti Xavi að hann myndi hætta með Barcelona eftir tímabilið og Tuchel hefur verið orðaður við spænsku meistarana.

Ummæli Tuchels mæltust ekki vel fyrir hjá Hamann sem úthúðaði stjóranum.

„Hann sest niður og talar um Xavi, eftirmanninn og að hann myndi vilja þjálfa Barcelona eða á Spáni. Það er til skammar!“ sagði Hamann.

„Hann er mjög klár maður og hann missir ekki eitthvað svona út úr sér. En hann verður að vita eitt: Ef þú ert starfsmaður Bayern og setur þig upp á móti stjórninni er sjaldnast góð hugmynd. Þegar ég horfi á síðustu þrjá heimaleiki eru þeir undir pari miðað við kröfurnar hjá Bayern. Gegn þremur liðum á botninum; það er ekki nógu gott.“

Bayern vann Augsburg, 2-3, á laugardaginn og er tveimur stigum frá toppnum í þýsku úrvalsdeildinni.

Tuchel tók við Bayern í lok mars í fyrra. Undir hans stjórn urðu Bæjarar þýskir meistarar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×