Fótbolti

Mikið ævin­týri hjá Tadsíkistan í Asíukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Akhtam Nazarov og félagar í Tadsíkistan fagna sigri í gærkvöldi eftir æsispennnadi vítaspyrnukeppni.
Akhtam Nazarov og félagar í Tadsíkistan fagna sigri í gærkvöldi eftir æsispennnadi vítaspyrnukeppni. Getty/Adam Nurkiewicz

Tadsíkistan heldur áfram að slá í gegn í Asíukeppninni í fótbolta sem fram fer í Katar en liðið tryggði sér sæti í átta liða úrslitunum í gær.

Tadsíkistan sló þá út lið Sameinuðu arabísku furstadæmanna í vítakeppni í sextán liða úrslitum keppninnar.

Þetta er í fyrsta sinn sem Tadsíkistan kemst í úrslitakeppni Asíumótsins og fótboltalandsliðið er bara í 106. sæti á heimslistanum.

Tadsíkistan er land í Mið-Asíu með landamæri að Afganistan í suðri, Kína í austri, Kirgistan í norðri og Úsbekistan í vestri.

Staðan var 1-1 eftir framlengingu en Khalifa Al-Hammadi jafnaði metin fyrir Furstadæmin í uppbótatíma eftir að Vakhdat Khanonov hafði komið nýliðunum yfir á 30. mínútu.

Leikmenn Tadsíkistan fagna sigri í vítakeppninni.Getty/ Zhizhao Wu

Leikmenn Tadsíkistan nýttu allar fimm vítaspyrnur sínar og unnu vítakeppnina 5-3.

Tadsíkistan mætir annað hvort Jórdaníu eða Írak í átta liða úrslitunum. Þjálfari Tadsíkistan er Petar Segrt sem er 57 ára gamall Króati sem tók við landsliðinu árið 2022 eftir að hafa þjálfað áður landslið Afganistan og Maldíveyja.

Lið Sameinuðu arabísku furstadæmanna höfðu komist í undanúrslit á síðustu tveimur Asíumótum.

Ástralía var ekki í miklum vandræðum í sínum leik þar sem liðið vann 4-0 sigur á Indónesíu. Ástralar mæta annað hvort Suður-Kóreu eða Sádí Arabíu í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×