Fótbolti

Xavi yfir­gefur Barcelona í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Xavi mun stíga til hliðar í sumar.
Xavi mun stíga til hliðar í sumar. Alex Caparros/Getty Images

Xavi, þjálfari Barcelona í La Liga - spænsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu, mun yfirgefa félagið að leiktíðinni lokinni.

Þetta staðfesti Xavi eftir ótrúlegt tap Börsunga gegn Villareal í kvöld. Lokatölur í Katalóníu 3-5 og Barcelona nú 10 stigum á eftir toppliði Real Madríd.

Hinn 44 ára gamli Xavi lék með Börsungum nær allan sinn feril en endaði hann í Katar. Þar hóf hann líka þjálfaraferil sinn áður en hann mætti til Barcelona árið 2021. Hann hefur gengið í gegnum súrt og sætt, stýrði liðinu til sigurs í La Liga á síðustu leiktíð en gríðarleg fjárhagsvandræði hafa herjað á félagið nær allan þann tíma sem Xavi hefur verið við stjórnvölin.

Samningur Xavi er til ársins 2025 en hann hefur nú staðfest að hann muni stíga til liðar í sumar þegar enn er ár eftir.

„Ég mun yfirgefa Barcelona í júní. Það verður ekki aftur snúið og það er kominn tími á breytingar. Sem Culé þá tel ég það vera tími til kominn að stíga til hliðar. Ég talaði við stjórnina og félagið í dag. Ég mun hætta þann 30. júní.“

Xavi er annað stóra nafnið í knattspyrnuheiminum sem staðfestir brotthvarf sitt á stuttum tíma en Jürgen Klopp mun hætta sem þjálfari Liverpool í sumar.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Villareal lagði Barcelona í átta marka leik á Ný­vangi

Villareal vann ótrúlegan útisigur á Barcelona í síðasta leik La Liga, spænsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Lokatölur á Nývangi 3-5 að þessu sinni og ljóst að það er farið að hitna verulega undir Xavi, þjálfara Barcelona.

Klopp hættir með Liverpool í vor

Jürgen Klopp hættir sem knattspyrnustjóri Liverpool en félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×