Enski boltinn

Hákon Rafn skrifar undir samning við Brentford til ársins 2028

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson er nýjasti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni.
Hákon Rafn Valdimarsson er nýjasti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni. brentfordfc.com

Hákon Rafn Valdimarsson var kynntur formlega í dag sem nýr leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford. Brentford kaupir hann frá sænska liðinu Elfsborg.

Hákon fór frá Gróttu til Elfsborg í júlí 2021 og hefur slegið í gegn hjá sænska félaginu.

Hann var valinn besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Hann hélt oftar hreinu en nokkur annar (13 sinnum) og varði 78 prósent skota sem á hann komu sem var einnig það besta í deildinni.

Elfsburg var nálægt því að vinna sænska titilinn en missti af honum undir lokin.

Hákon hefur skrifað undir samning til ársins 2028 með möguleika á því að framlengja samninginn um tvö ár.

Hákon lék síðan sinn fyrsta A-landsleik á móti Portúgal í nóvember og lítur út fyrir að vera framtíðarmarkvörður landsliðsins.

„Ég er mjög, mjög ánægður með að við náðum að fá Hákon því það var samkeppni frá öðrum félögum meðal annars frá liðum í ensku úrvalsdeildinni. Við erum að stækka sem félag og við höfum sýnt það að hjá okkur verða leikmenn betri,“ sagði Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, í frétt á síðu félagsins.

„Hákon er mjög spennandi markvörður. Hann er öflugur í teignum og í því að grípa inn í fyrirgjafir frá föstum leikatriðum sem og í opnum leik. Hann er líka góðu í að dreifa boltanum. Hann passar vel inn í það hvernig við viljum spila,“ sagði Frank.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×