Fótbolti

Reyndu að fá þjálfara franska kvenna­lands­liðsins lánaðan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hervé Renard tekur ekki við landsliði Fílabeinsstrandarinnar til bráðabirgða.
Hervé Renard tekur ekki við landsliði Fílabeinsstrandarinnar til bráðabirgða. getty/Ulrik Pedersen

Fílabeinsströndin reyndi að fá þjálfara franska kvennalandsliðsins í fótbolta lánaðan fyrir útsláttarkeppnina á Afríkumótinu.

Jean-Louis Gasset var rekinn sem þjálfari Fílabeinsstrandarinnar á miðvikudaginn. Sama dag komst liðið áfram í sextán liða úrslit Afríkumótsins eftir hagstæð úrslit í öðrum riðlum.

Fílabeinsströndin er því þjálfaralaus og framundan er leikur gegn Afríkumeisturum Senegal á mánudaginn. 

Góð ráð eru því dýr og forráðamenn Fílabeinsstrandarinnar höfðu samband við franska knattspyrnusambandið til að reyna að fá þjálfara kvennalandsliðsins, Hervé Renard, lánaðan.

Renard þjálfaði áður Fílabeinsströndina og gerði liðið að Afríkumeisturum 2015. Hann vann keppnina einnig þremur árum fyrr sem þjálfari Sambíu. Renard tók við franska kvennalandsliðinu í fyrra og stýrði því á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Frakkar komust þar í átta liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×