Innlent

Erfið aksturs­skil­yrði og mikið um ó­höpp

Árni Sæberg skrifar
Umferðin hefur verið þung seinni partinn.
Umferðin hefur verið þung seinni partinn. Vísir/Sigurjón

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir akstursskilyrði á höfuðborgarsvæðinu erfið. Reykjavíkurborg segir glerhálku víða. Öll snjómoksturstæki séu á stofnbrautum. 

„Það eru erfið akstursskilyrði, bæði fyrir ökutæki og líka aðra sem eru þátttakendur í umferð, reiðhjól og fótgangandi. Við höfum fengið dálítið af tilkynningum um umferðaróhöpp en sem betur fer eru engin alvarleg slys í þessu,“ segir Árni í samtali við Vísi.

Sjúkraflutningamenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins eru á ferð um borgina á þremur til fjórum sjúkrabílum, þar sem þeir fara á vettvang árekstra og umferðarslysa. Varðstjóri hjá slökkviliðinu segir ekki ljóst hvort einhver hafi verið fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en árekstrarnir séu margir.

Ríkisútvarpið hefur eftir Kristjáni Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Áreksturs.is, að tilkynningar um umferðaróhöpp til fyrirtækisins hlaupa á tugum.

Þá segir Árni að rafmagnsleysið í Reykjavík, í kringum klukkan 16, hafi vissulega haft áhrif á umferð, hægt á henni, en umferðaröngþveitið sé aðallega snjókomubakkanum, sem kom yfir höfuðborgarsvæðið eftir hádegi, um að kenna.

Mjög hált hafi orðið á vegum, gangstéttum og hjólastígum.

Öll tæki borgarinnar á stofn-og tengibrautum

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að öll tæki vetrarþjónustu séu úti á stofn- og tengibrautum. Það fari hinsvegar eftir veðurspá hvenær farið verður í að hreinsa húsagötur. Það verði í síðasta lagi í fyrramálið.

Klukkan 17:00 er vandasamt fyrir tækin að komast að sökum umferðar. Segir í tilkynningunni að húsagötur hafi verið forsaltaðar í dag í Reykjavík. Hinsvegar hafi snjóað meira en gert var ráð fyrir og er glerhálka á köflum.

Þá segir að umferðarljós borgarinnar séu viðkvæmur rafeindabúnaður sem dottið hafi út vegna rafmagnsleysis í borginni í dag. Þau eigi að detta inn núna eftir að rafmagn komast aftur á.

Gerist það ekki sé það gert handvirkt. Biðlar borgin til vegfarenda að fara varlega. 

Fréttin var uppfærð með tilkynningu frá Reykjavíkurborg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×