Fótbolti

Al­gjör markaþurrð í nýju sam­starfi Messi og Suárez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Undirbúningstímabilið byrjar ekki vel hjá Lionel Messi og félögum Inter Miami þegar kemur að því að setja boltann í mark mótherjanna.
Undirbúningstímabilið byrjar ekki vel hjá Lionel Messi og félögum Inter Miami þegar kemur að því að setja boltann í mark mótherjanna. Getty/Carmen Mandato

Vinirnir Lionel Messi og Luis Suárez eru sameinaðir á nýjan leik inn á fótboltavellinum en það er ekki hægt að segja að þeir fari vel af stað með Inter Miami liðinu.

Suárez samdi við bandaríska félagið á dögunum og er enn af mörgum vinum Messi sem Inter Miami hefur samið við á síðustu misserum. Nýtt tímabil er að hefjast og undirbúningstímabilið er nú í fullum gangi.

Inter Miami er nú búið að spila tvo æfingarleiki þar sem þeir vinirnir Messi og Suárez hafa byrjað saman í framlínunni. Þetta eru tveir af bestu sóknarmönnum heims síðasta áratuginn en uppskeran er heldur rýr í þessum fyrstu leikjum.

Útkoman úr þessum tveimur leikjum en nefnilega allt annað en glæsileg.

Inter Miami tapaði 1-0 á móti FC Dallas í nótt og gerði markalaust jafntefli í fyrsta æfingarleiknum sínum.

Liðið er því búið að spila tvo heila leiki án þess að skora eitt einasta mark.

Messi var með 11 mörk og 5 stoðsendingar í 14 leikjum á sínu fyrsta tímabili og hjálpaði því að vinna deildabikarinn. Hann er vissulega að verða 37 ára gamall í sumar en það er engu að síður búist við því að hann geti tekið MLS-deildina með trompi í ár.

Næst á dagskrá er ferðalag til Sádi-Arabíu þar sem liðið mætir Al Hilal næsta mánudag og svo liði Cristiano Ronaldo, Al-Nassr, í framhaldinu.

Liðið á einnig eftir að fara til Hong Kong en tímabilið í MLS-deildinni hefst síðan 22. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×