Innlent

Mót­­mælendur mæta þing­­mönnum: „Al­­menningur fylgist með“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Ítrekuð mótmæli og margir útifundir hafa farið fram í miðbænum í Vetur. Sá næsti fer fram klukkan 14:30 í dag, þegar þing kemur saman.
Ítrekuð mótmæli og margir útifundir hafa farið fram í miðbænum í Vetur. Sá næsti fer fram klukkan 14:30 í dag, þegar þing kemur saman. vísir/Vilhelm

Nokkur hundruð manns hafa boðað komu sína á mótmæli á Austurvelli á sama tíma og þing kemur saman í dag. Skipuleggjandi segir aðgerðaleysi stjórnmálamanna gagnvart þjóðarmorði á Gasa ekki boðlegt

Boðað hefur verið til mótmælanna klukkan hálf þrjú í dag. Tímasetningin er engin tilviljun en Alþingi kemur saman eftir jólafrí klukkan þrjú og Magnús Magnússon, hjá félaginu Ísland-Palestína og skipuleggjandi, ætlast til þess að þingmenn heyri ákallið og bregðist við.

„Við erum með nokkrar kröfur og þær eru að við viljum að ríkisstjórn íslands fordæmi þjóðarmorðin, við viljum að þeir stjórnmálasambandi við Ísrael verði og að viðskiptaþvingunum verði beitt. Að Ísreal hætti árásarstríði á saklausa borgara á Gasa og við viljum að þeir sinni fjölskuldusameiningum sem þegar hafa verið samþykktar og að Palestínufólki sem býr nú þegar á Íslandi verði veitt alþjóðlega vernd,“ segir Magnús.

Mótmæli vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs hafa verið viðvarandi í tjöldum á Austurvelli síðasta mánuðinn en þar er nú einungis eftir eitt stórt tjald sem kallað er samstöðutjald og ekki má lengur gista í.

Þá hafa einnig verið regluleg mótmæli í miðbænum sem Magnús segir verða sífellt fjölmennari.

„Og þetta er bara venjulegt fólk sem mætir á mótmælin, bara fólk með börnin sín. Þetta er almenningur en ekki einhver róttækur hluti eða jaðarhópur sem er alltaf að mæta.  Almenningur er að fylgjast með og almenningur á Íslandi styður við málstað Palestínu,“ segir Magnús.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×