Innlent

Rann­sóknar­nefnd um snjó­flóðið í Súða­vík

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Minnisvarði í Súðavík um þau fjórtán sem létust í snjóflóðinu árið 1995. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur sent beiðni um skipan rannsóknarnefndar um Snjóflóðin til forseta Alþingis.
Minnisvarði í Súðavík um þau fjórtán sem létust í snjóflóðinu árið 1995. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur sent beiðni um skipan rannsóknarnefndar um Snjóflóðin til forseta Alþingis. vísir/Vilhelm

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur sent þingforseta beiðni um skipan rannsóknarnefndar um snjóflóðið á Súðavík. Algjör samstaða ríkti um málið þvert á flokka innan nefndarinnar.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samþykkti samhljóða í gær beiðni um skipan rannsóknarnefndar um snjóðflóðið og hefur nú sent tillögu til forseta Alþingis um skipan nefndarinnar að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, nefndarformanns.

„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd barst bréf frá forsætisráðherra síðastliðið sumar með erindi frá aðstandendum og eftirlifendum snjóflóðsins í Súðavík 16. janúar 1995. Sá hópur hefur lengi reynt að fá svör frá hinu opinbera um ýmislegt sem gerðist í aðdraganda flóðsins og eftir það. Við höfum fjallað um þetta erindi í nefndinni í allan vetur, fengið til okkar gesti og rætt allar hliðar málsins og niðurstaðan var að gera tillögu um að Alþingi stofni sjálfstæða og óháða rannsóknarnefnd,“ segir Þórunn.

Heimildin greindi fyrst frá skipan nefndarinnar en fyrrnefnt erindi var sent eftir umfjöllun fjölmiðilsins um snjóflóðin í fyrra. 

Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.Vísir/Vilhelm

Afgreiði forseti Alþingis málið frá sér fer það fyrir þingið sem greiðir þá atkvæði um stofnun nefndarinnar. Þórunn ítrekar að nefndin sé sjálfstæð en að það blasi við að hún muni kanna og rýna aðdraganda snjóflóðsins og eftirmála þess. Fjórtán létust í snjóflóðinu og þar af átta börn. 

Þórunn segir það marka ákveðin tímamót að nefndin hafi náð saman um málið.

„Lögin um rannsóknarnefndir Alþingis eru frá 2011 og hingað til hafa rannsóknarnefndir snúist um eftirmál hrunsins. En það má líka, eins og dæmin sanna frá öðrum löndum, nýta þær til að rannsaka önnur mál sem varða almannahagsmuni,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×