Innlent

Allar götur í Reykja­vík ættu að vera færar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hjalti Jóhannes Guðmundsson er skrifstofustjóri borgarlandsins.
Hjalti Jóhannes Guðmundsson er skrifstofustjóri borgarlandsins. einar árnason

Götur í Reykjavík ættu að vera greiðfærar eftir snjókomu næturinnar að sögn fulltrúa hjá borginni. Færð er þó víða erfið vegna hálku og gul viðvörun í gildi.

Viðvörunin er í gildi á Suðurlandi til klukkan eitt í dag. Talsverð snjókoma er á köflum í landshlutanum með takmörkuðu eða lélegu skyggni og vetrarfærð á höfuðborgarsvæðinu. Búast má við versnandi akstursskilyrðum og afmörkuðum samgöngutruflunum.

Allar leiðir færar

Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri borgarlandsins segir að snjómokstur hafi gengið vel í Reykjavík í nótt og í morgun. Flest allar götur ættu að vera greiðfærar.

„Það hefur gengið mjög vel. Snjókoman var ekki eins mikil og við gerðum ráð fyrir í gærkvöldi þannig það var bara hið besta mál. Allar okkar áætlanir hafa gengið upp og allar leiðir færar í borginni.“

Snjóþungt var í borginni í morgun.sigurjón ólason

Nú sé unnið að því að moka í húsagötum. Tugir tækja hafi verið við mokstur í nótt.

„Það sem við erum að gera núna er í raun og veru að klára kerfið í heild sinni. Gerum það vonandi núna í kvöld eða í síðasta lagi á morgun og síðan er mikilvægt að missa ekki eins og húsagöturnar í klakamyndun því það er frost eftir þessa snjókomu þannig það ætti að nást því við erum byrjaðir og þegar við erum byrjaðir þá vinnst nú yfirleitt í þessu snjómagni húsagöturnar ágætlega.“

Umferðaróhöpp í snjónum

Þónokkur umferðaróhöpp hafa verið skráð hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun og gengur umferð hægt. Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar segir í samtali við fréttastofu að staðan sé svipuð á öllu höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem eru á illa búnum bílum eigi ekki erindi á götur borgarinnar.

Hjalti minnir fólk á að fari varlega í umferðinni.

„Það er hált og erfitt að eiga við hálkuna í svona miklu frosti þannig allir að fara varlega.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×