Fótbolti

Fyrsta knatt­spyrnu­konan til að fá meira en tvær milljónir dollara í laun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mallory Swanson fagnar hér marki með bandaríska landsliðinu.
Mallory Swanson fagnar hér marki með bandaríska landsliðinu. Getty/Brad Smith/

Bandaríkjamenn eiga aftur launahæstu knattspyrnukonuna í bandarísku deildinni. Landsliðsframherjinn Mallory Swanson er nefnilega orðin launahæsti leikmaður bandarísku NWSL deildarinnar eftir að hún gekk frá nýjum samningi.

Swanson skrifaði undir fjögurra ára samning við Chicago Red Stars með möguleika á framlengingu um eitt ár. Bandarískir fjölmiðlar segja að samningurinn sé tveggja og hálfrar milljón dollara virði sem eru 345 milljónir íslenskra króna.

Swanson skrifaði undir samning til ársins 2028 en með því setti hún bæði met yfir lengsta samninginn sem og yfir þann samning sem gefur leikmanni mest í aðra hönd.

Mexíkanska landsliðskonan María Sánchez átti metið í nokkrar vikur eftir að hún skrifaði undir þriggja ára samning Houston Dash sem skilar henni einni og hálfri milljón, talið í dollurum. Það eru um 207 milljónir í íslenskum krónum.

Árið 2022 varð Trinity Rodman sú fyrsta til að fá yfir eina milljón dollara þegar hún samdi um 1,1 milljón dollara fyrir fjögurra ára samning við Washington Spirit.

Þessi þróun er hröð og bestu knattspyrnukonur bandarísku deildarinnar eru að hækka mikið í launum sem er mjög jákvætt.

Deildin hækkaði nýverið launaþakið um fjörutíu prósent eða upp í 2,75 milljónir dollara á tímabili. Þetta tengdist því að deildin gekk frá nýjum fjögurra ára sjónvarpssamningi.

Hin 25 ára gamla Swanson er mjög öflugur leikmaður en hún var efst hjá sínu liði í bæði mörkum (11) og stoðsendingum (6).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×