Innlent

Umbi skammar Vinnu­mála­stofnun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Dráttur Vinnumálastofnunar á málunum var ekki í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga.
Dráttur Vinnumálastofnunar á málunum var ekki í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga. Vísir/Vilhelm

Umboðsmaður Alþingis hefur atyrt Vinnumálastofnun fyrir seinagang við afgreiðslu fjölda beiðna um endurútreikning hlutabóta.

Þetta kemur fram á vef Umboðsmanns, þar sem álit hans í málinu er tíundað. Þar segir að í febrúar 2022 hafi úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurðað að óheimilt væri að skerða atvinnuleysisbætur vegna orlofs, orlofsuppbótar eða desemberuppbótar í þeim mánuði sem greiðslan var innt af hendi.

„Í maí 2022 upplýsti Vinnumálastofnun þau sem höfðu fengið greiddar hlutabætur á árunum 2020 og 2021 um að þessi niðurstaða kynni að hafa áhrif á útreikning þeirra og hægt væri að óska eftir endurútreikningi. Í sama mánuði tók Vinnumálastofnun hins vegar í notkun tölvukerfi sem reyndist ekki duga til að framkvæma endurútreikningana. Fyrir vikið voru beiðnir þar að lútandi ekki afgreiddar fyrr en um það bil ári síðar,“ segir í útdrætti Umboðsmanns.

Umboðsmaður vildi fá að vita, meðal annars, hvort nýja töluvkerfið hefði verið prófað áður en það var tekið í gagnið, hvert umfang tafanna væri sem orðið hafa á afgreiðslu mála vegna innleiðingar kerfisins og hvort eitthvað hefði verið því til fyrirstöðu að nota aðrar leiðir til að endurreikna bæturnar.

Þrátt fyrir að hafa ítrekað síðustu spurninguna segir að Umboðsmaður hafi ekki fengið svar og því hafi tæplega 300 beiðnir um endurútreikning setið á hakanum.

„Að áliti umboðsmanns var sá dráttur sem varð á afgreiðslu Vinnumálastofnunar í þessum málum ekki í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga. Einnig væri aðfinnsluvert að stofnunin hefði ekki afgreitt þær beiðnir sem að hennar mati var augljóst að uppfylltu ekki skilyrði fyrir endurútreikningi eða voru tilhæfulausar. Þá hefði Vinnumálastofnun borið að upplýsa um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málanna, af hverju þær stöfuðu og hvenær mætti vænta niðurstöðu, en því var ekki sinnt,“ segir í útrdrættinum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×