Þegar fréttastofa hitti á Fannar Jónasson bæjarstjóra í Grindavík í Ráðherrabústaðnum rétt fyrir fund hans og bæjarfulltrúa með ríkisstjórninni í hádeginu gat hann ekki staðfest að skemmdir hefðu verið vegna frosinna lagna í inni í húsum í Grindavík.
„En það er vitað af skemmdum í lögnum neðanjarðar. Það kemur betur í ljós þegar farið verður að hleypa heitu vatni inn á bæinn. Það verður þá vaktað. Menn óttast að það sé eitthvað um skemmdir en þetta á eftir að koma betur í ljós þegar líður fram á daginn,“ sagði Fannar.

Húsnæðismálin væru efst á forgangslista Grindvíkinga.
„Það ríður enn þá meira á að það sé unnið hratt og vel að þessu. Við vitum að við höfum fullan skilning hjá ríkisstjórninni hvað þetta varðar. Það eru fleiri frumvörp í bígerð sem verða einnig rædd. Það varðar tryggingamál og fjárhagslega afkomu. Það varðar líka hag bæjarsjóðs sem er auðvitað verulega laskaður, enda gæti hann til dæmis ekki lagt á fasteignaskatta við núverandi aðstæður.
Þeim hugmyndum hefur verið varpað fram að reisa nýja byggð, jafnvel einhvers staðar innan bæjarmarka Reykjanesbæjar, með svo kölluðum viðlagasjóðshúsum, einingahúsum sem gætu risið mjög hratt. Það kæmi þá ný samfelld byggð fyrir Grindvíkinga að minnsta kosti til bráðabirgða.
Hvernig slá þær hugmyndir þig?
„Við erum enn að vinna með þær hugmyndir og aðgerðir að Grindavík verði byggð upp aftur. Hversu raunhæft er að gera mikil plön í því sambandi núna er annað mál. En við erum ekki að sjá að Grindavík og samfélagið okkar sé úr sögunni. Heldur ætlum við að gera okkar besta til að flytja heim en það eru náttúran og örlögin auðvitað sem stjórna þessu.

Ertu sannfærður um það að stjórnvöld, ríkisstjórn og Alþingi, séu öll að vilja gerð til að gera allt sem hægt er að gera fyrir Grindvíkinga í þessari stöðu?
„Já, ég vil trúa því. Það er enginn stjórn eða stjórnarandstaða núna að fjalla um þetta. Held að það megi sjá á því sem Alþingi hefur þegar tekið fyrir að það er alger samhljómur og samstaða um að það þurfi að hjálpa Grindvíkingum,“ segir bæjarstjórinn.
Grindavík væri mjög öflugt byggðarlag sem hefði skilað sínu til þjóðarbúsins ríflega lengi vel.
„Öflug verstöð, mikil verðmæti sem í því felast og það er mikilvægt að byggja upp bæinn. Ég held að það sé enginn að tala um annað en að full samstaða eigi að vera um þessi mál,“ segir Fannar Jónasson.