Innlent

Einar orðinn borgar­stjóri

Bjarki Sigurðsson skrifar
Einar tók við starfi borgarstjóra af Degi í dag.
Einar tók við starfi borgarstjóra af Degi í dag. Vísir/Einar

Einar Þorsteinsson var í dag kjörinn borgarstjóri af borgarstjórn. Að fundi borgarstjórnar loknum afhenti Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, Einari lyklavöldin að borgarstjóraskrifstofunni. 

Dagur hafði gegnt embættinu samfleitt í 3.500 daga, tæp tíu ár. Á sama fundi var Dagur kjörinn formaður borgarráðs en Einar hafði gegnt því hlutverki síðan ný borgarstjórn var kjörin árið 2022.

Einar var til viðtals í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag, en þar var hann spurður hvort Reykvíkingar myndu finna fyrir því að það væri kominn nýr borgarstjóri.

„Við Dagur erum kannski dálítið ólíkir. Ég bý í úthverfi og á börn á öllum skólastigum, og embættið mótast auðvitað að einhverju leiti af manninum sem stýrir því. Þannig að áherslur mínar eru á þá leið að þessir grunnþættir í rekstri borgarinnar fúnkeri. Ég vil að snjórinn sé mokaður og að sorpið sé hirt á réttum tíma. Ég vil að við leysum úr vandamálum dagsins í dag. Það er mikilvægt að hafa framtíðarsýn, og við höfum hana, en við verðum að muna að framtíðin er ekki bara eftir tíu, tuttugu, þrjátíu ár. Hún er líka á morgun,“ sagði Einar.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, var kjörin varaformaður borgarráðs og tekur við af Heiðu Björg Hilmisdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. 

Varafulltrúar í borgarráði verða nú Heiða Björg og Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, í stað Skúla Helgasonar, Samfylkingunni og Árelíu Eydísar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×