Innlent

Hvetur fé­lags­menn til að halda aftur af hækkunum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hvetur félagsmenn til að halda aftur af hækkunum hjá sér til að liðka fyrir komandi kjarasamningum.
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hvetur félagsmenn til að halda aftur af hækkunum hjá sér til að liðka fyrir komandi kjarasamningum. Vísir

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda skorar á félagsmenn að halda aftur af verðhækkunum og taka þannig þátt í að þjóðarsátt náist milli SA og breiðfylkingar innan ASÍ. Fyrirtækin eigi auðveldara með slíkt dragi hið opinbera úr boðuðum hækkunum. Forsvarsmenn félagsins hittu forystu VR í morgun.

Samtök atvinnulífsins og breiðfylking innan ASÍ skoruðu í desember á fyrirtæki og hið opinbera að halda aftur að hækkunum til að liðka fyrir komandi kjarasamningum. Verkalýðsleiðtogarnir áttu  svo fund með ríkisstjórninni í síðustu viku og var niðurstaðan þar að stjórnvöld sögðust ætla að leggja sitt af mörkum náist hagstæðir samningar.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri félags atvinnurekenda hitti forystufólk VR vegna komandi kjarasamninga í morgun og segir það fyrst og fremst hafa verið upplýsingafund. 

Ólafur hvetur félagsmenn sína til að halda aftur af verðhækkunum.

„Það eru allir sammála um að það er til mikils að vinna að ná niður verðbólgu og vöxtum. Við hvetjum okkar félagsmenn til að halda aftur að verðhækkunum eins og þeir mögulega geta. Það að ríki og sveitarfélög dragi úr sínum boðuðu verðhækkunum  hjálpar að sjálfsögðu til. Þetta spilar allt saman,“ segir hann.

Opinberir starfsmenn þurfi líka að taka þátt í þjóðarsátt

Ólafur er vongóður um að það náist hagstæðir kjarasamningar fyrir launafólk og atvinnulífið.

„Það er augljóslega góður tónn í þessu samtali milli SA og breiðfylkingar innan ASÍ. Ég held það skipti máli að allir leggist á eitt að gera skynsamlega samninga til að ná niður verðbólgunni og vöxtunum.Við horfum auðvitað líka til þess að starfsmenn hins opinbera taki þátt í þeirri þjóðarsátt sem þarf að eiga sér stað. Þeir geta ekki skorast undan,“ segir hann. 

Fundur hjá sáttasemjara í dag

Efling átti fund með SA í morgun þar sem ýmis sérmál voru rædd að sögn formannsins.

 Samninganefndir SA og breiðfylkingar ASÍ hittast svo hjá ríkissáttasemjara klukkan eitt í dag.

Gildandi samningar renna út 31. janúar og hafa samningsaðilar lagt mikla áherslu á að nýir samningar náist fyrir það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×