Innlent

Óvissustigi lýst yfir vegna Grímsvatna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Grímsvötnum.
Frá Grímsvötnum. Vísir/RAX

Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir af ríkislögreglustjóra í samráði við Lögreglustjórann á Suðurlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Eins og Vísir hefur greint frá er hlaup hafið úr Grímsvötnum. Vegna þess og aukinnar skjálftavirkni hefur fluglitakóði fyrir eldstöðina verið færður á gulan lit af Veðurstofu Íslands.

Áður hefur Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagt í samtali við fréttastofu að meiri líkur en minni séu á gosi í Grímsvötnum. Þau séu allajafna lítil en geti orðið til þess að hafa áhrif á flugleiðir.

Í tilkynningu almannavarn segir að samkvæmt Veðurstofunni sé líklegt að hámarksrennsli verði ekki umfram 1.000 m3/s miðað við það vatnsmagn sem safnast hefur í Grímsvötnum. Búast má við að hámarksrennsli í Gígjukvísl við þjóðveg 1 verði svipað og hámarksrennsli úr Grímsvötnum. Hlaupið ætti því ekki hafa nein áhrif á mannvirki sem sagt vegi og brýr.

Þá segir þar ennfremur að það þekkist að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan, það gerðist síðast árið 2004, þar áður árið 1934 og 1922. Mun oftar hafi þó hlaupið úr Grímsvötnum án þess að til eldgoss kæmi.

Þess er getið að ferðaleiðir austur af Grímsfjalli geti verið varhugaverðar vegna myndunar á sprungum og sigkötlum. Því biðla almannavarnir til ferðafólks að gæta varúðar á þessu svæði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×