Fótbolti

Svein­dís Jane byrjuð að æfa á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindis Jane Jónsdóttir verður vonandi komin á fullt með VfL Wolfsburg þegar keppni hefst á ný.
Sveindis Jane Jónsdóttir verður vonandi komin á fullt með VfL Wolfsburg þegar keppni hefst á ný. Getty/Maja Hitij

Íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir er komin aftur út á grasið eftir margra mánaða fjarveru.

Sveindís staðfesti það á samfélagsmiðlum í gær að hún væri byrjuð að æfa með Wolfsburg liðinu. Hún sýndi þá myndir af sér á æfingu. Þetta eru gleðifréttir, ekki aðeins fyrir íslenska fótbolta, heldur líka fyrir þýska liðið.

Wolfsburg stelpurnar eru komnar til Portúgal þar sem þær verða í æfingabúðum næstu daga en það er vetrarfrí í þýsku deildinni.

Sveindís meiddist í haust og spilaði síðasta leikinn sinn 17. september.

Sveindís skoraði þá í sigri á Leverkusen í fyrstu umferð þýsku deildarinnar en hnémeiðsli þýddu að hún missti af öllum landsleikjunum í haust sem og auðvitað öllum leikjum Wolfsburg liðsins.

Nú lítur allt betur út hjá okkar konu og hún verður vonandi kominn á fullt þegar Wolfsburg spilar sinn fyrsta leik eftir vetrarfrí sem verður 29. janúar.

Þýska liðið spilar nokkra æfingarleiki fram að því og sá fyrsti er á morgun á móti Hoffenheim. Leikurinn fer fram á Algarve í Portúgal. Hvort Sveindís spili þann leik verður að koma í ljós en svo gæti farið að Wolfsburg fari varlega með hana til að byrja með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×