Fótbolti

Arnar Gunn­laugs­son þjálfari ársins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Bergmann Gunnlaugsson er þjálfari ársins 2023.
Arnar Bergmann Gunnlaugsson er þjálfari ársins 2023. Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings í fótbolta, er þjálfari ársins 2023 á Íslandi. Frá þessu var greint á verðlaunahófi Samtaka íþróttafréttamanna í kvöld.

Þetta er í fyrsta sinn sem Arnar hlýtur þessa nafnbót. Á árinu 2023 varð Víkingur tvöfaldur meistari undir hans stjórn, vann Bestu deildina og Mjólkurbikarinn. Síðan Arnar tók við Víkingum haustið 2018 hafa þeir unnið sex stóra titla og bikarkeppnina meðal annars fjórum sinnum í röð.

Arnar fékk afgerandi kosningu, eða 122 stig, áttatíu stigum meira en Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, sem varð í 2. sæti í kjörinu. Undir stjórn Þóris lenti Noregur í 2. sæti á HM í síðasta mánuði.

Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls í körfubolta karla, varð í 3. sæti í kjörinu. Hann gerði Stólana að Íslandsmeisturum í fyrsta sinn síðasta vor.

Alls tóku 28 íþróttafréttamenn þátt í kjörinu og valdi hver og einn þrjá bestu þjálfara ársins að sínu mati. Fimm stig fengust fyrir efsta sæti, þrjú fyrir 2. sæti og eitt stig fyrir það þriðja.

Þjálfari ársins

  1. Arnar Gunnlaugsson 122
  2. Þórir Hergeirsson 42
  3. Pavel Ermolinski 40
  4. Heimir Hallgrímsson 28
  5. Freyr Alexandersson 16
  6. Óskar Hrafn Þorvaldsson 2
  7. Pétur Péturssson 1
  8. Guðmundur Guðmundsson 1



Fleiri fréttir

Sjá meira


×