Fótbolti

Freyr keyptur til Belgíu

Sindri Sverrisson skrifar
Freyr Alexandersson hefur gert frábæra hluti sem þjálfari Lyngby og fékk þar með tækifæri í Belgíu.
Freyr Alexandersson hefur gert frábæra hluti sem þjálfari Lyngby og fékk þar með tækifæri í Belgíu. Getty/Lars Ronbog

Freyr Alexandersson er hættur að þjálfa danska knattspyrnufélagið Lyngby. Belgíska félagið Kortrijk hefur nefnilega keypt þennan 41 árs gamla þjálfara.

Frá þessu greinir danski miðillinn B.T. í dag. Lyngby hefur nú staðfest að Freyr yfirgefi félagið, sem og aðstoðarþjálfarinn Jonathan Hartmann.

Kortrijk hefur skipt ört um þjálfara undanfarin ár og verður Freyr þriðji þjálfarinn til að stýra liðinu í vetur. Glen De Boeck var síðast þjálfari liðsins en látinn fara í desember. Fyrr á þessari leiktíð var Edward Still rekinn og De Boeck fékk bara að stýra liðinu í níu leikjum.

Freyr, sem hafði meðal annars stýrt íslenska kvennalandsliðinu og verið aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins, var ráðinn þjálfari Lyngby sumarið 2021.

Hann kom Lyngby upp í dönsku úrvalsdeildina og tókst með hreint út sagt ævintýralegum hætti að halda liðinu uppi í deildinni á síðustu leiktíð.

Eftir 17 umferðir á yfirstandandi leiktíð er Lyngby í 7. sæti af 12 liðum í dönsku úrvalsdeildinni.

Erfið fallbarátta bíður

Freyr mun þurfa á allri sinni reynslu af fallbaráttu að halda hjá Kortrijk en liðið er langneðst í belgísku A-deildinni, með aðeins tíu stig eftir tuttugu leiki.

Kortrijk hefur tapað síðustu fjórum leikjum í röð og ekki fagnað sigri í deildinni síðan 21. október. Nú er vetrarfrí í deildinni en næsti leikur liðsins er gegn Standard Liege 20. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×