Fótbolti

Bayern bendir á sturlaða stað­reynd um Glódísi: „Svo sterk“

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir er sannkallaður klettur í vörn Bayern München.
Glódís Perla Viggósdóttir er sannkallaður klettur í vörn Bayern München. Getty/Catherine Steenkeste

Glódís Perla Viggósdóttir er ekki bara komin í hóp bestu varnarmanna heims heldur virðist hún einhver áreiðanlegasta knattspyrnukona sem fyrirfinnst.

Félagslið Glódísar, þýsku meistararnir í Bayern München, bendir í dag á þá mögnuðu staðreynd að Glódís lék allar mínútur sem í boði voru með liðinu á árinu sem nú er að líða, eða alls 2.790 mínútur.

Glódís lék einmitt allar mínútur sem í boði voru í deildarleikjum Bayern á síðustu leiktíð, þegar liðið varð Þýskalandsmeistari. Á almanaksárinu 2023 hefur hún spilað 22 deildarleiki, þrjá bikarleiki, og sex leiki í Meistaradeild Evrópu. Alla þessa leiki, 31 talsins, hefur Glódís spilað frá upphafi til enda.

„Svo sterk,“ stendur í færslu Bayern á samfélagsmiðlum um fyrirliðann, en Glódís fékk fyrirliðabandið hjá bæði Bayern og íslenska landsliðinu á þessu ári.

Og það sem Bayern bendir ekki á er að Glódís var sömuleiðis önnur af tveimur leikmönnum Íslands sem spiluðu allar mínúturnar í Þjóðadeildinni í ár, eða sex leiki frá upphafi til enda. Hin er raunar einnig á mála hjá Bayern, en að láni hjá Leverkusen þar sem hún hefur farið á kostum í vetur, en það er Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.

Þannig bætast við 540 mínútur hjá Glódísi sem spilaði svo auk þess alla nema einn af sjö vináttulandsleikjum Íslands á árinu. Henni var vissulega skipt af velli í tveimur þessara leikja en eini leikurinn sem Glódís spilaði ekki á árinu var í 5-0 sigrinum gegn Filippseyjum, í Pinatar-bikarnum svokallaða.

Glódís lék því allar 3.330 mínúturnar af keppnisleikjum sem í boði voru fyrir hana á árinu 2023. Ef vináttulandsleikirnir eru teknir með spilaði hún svo 3.797 af 3.960 mínútum sem í boði voru á árinu.


Tengdar fréttir

Glódís og Hákon hlutu afgerandi kosningu

Glódís Perla Viggósdóttir er knattspyrnukona ársins og Hákon Arnar Haraldsson er knattspyrnumaður ársins. Bæði hlutu þau nafnbótina í fyrsta sinn í fyrra og halda henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×