Fótbolti

Fabregas verður að hætta af því að leyfið hans rann út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þjálfaraferill Cesc Fabregas byrjaði vel hjá Como en nú þarf hann að stíga til baka um tíma.
Þjálfaraferill Cesc Fabregas byrjaði vel hjá Como en nú þarf hann að stíga til baka um tíma. Getty/Luca Rossini

Cesc Fabregas hefur unnið fjóra af fimm leikjum sínum síðan hann tók við ítalska liðinu Como en Spánverjinn er samt að missa starfið sitt.

Fyrrum stórstjarna Arsenal, Barcelona og Chelsea, hefur farið vel af stað í nýju hlutverki en þjálfaraferill hans hófst á sama stað og leikmannaferillinn hans endaði.

Fabregas fær að stýra leik liðsins á móti Palermo á Þorláksmessu en þarf svo að stíga frá borði. Osian Roberts mun taka tímabundið við Como liðinu og stýra því út tímabilið.

Ástæðan fyrir þessu er að hinn 36 ára gamli Fabregas hefur ekki nauðsynleg réttindi. Hann fékk tímabundið leyfi frá ítalska knattspyrnusambandinu en það leyfi rennur út á sunnudaginn.

Fabregas verður engu að síður áfram hluti af þjálfarateymi Como. Hann tók við liðinu 13. nóvember síðastliðinn og eftir fjóra sigra í fimm leikjum er liðið komið upp í þriðja sæti B-deildarinnar.

Fabregas er að vinna í því að fá nauðsynleg þjálfararéttindi og ætti að klára það á næstu mánuðum. Hann fær væntanlega starfið sitt aftur þegar það er í höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×