Innlent

Krefjast þess að Edda Björk verði dæmd í sau­tján mánaða fangelsi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Edda Björk situr nú í gæsluvarðahaldi í Noregi.
Edda Björk situr nú í gæsluvarðahaldi í Noregi. Vísir/Magnús Hlynur

Ákæruvaldið í Noregi krefst þess að Edda Björk Arnardóttir verði dæmd í sautján mánaða fangelsi fyrir að hafa numið börn sín á brott frá Noregi. Þeir segja málið hafa verið föður barnanna afar þungbært.

Frá þessu greinir Morgunblaðið en blaðamaður þess var viðstaddur meðferð málsins í Noregi.

Haft er eftir saksóknaranum Lise Dalhaug að Edda Björk hefði dregið upp „glansmynd“ af lífi drengjanna á Íslandi sem stæðist ekki. Nám þeirra sæktist ekki jafn vel og hún vildi meina og þá töluðu drengirnir bjagaða íslensku.

Edda hefði sagt börnum sínum hvað þeim bæri að segja og hvernig þeim bæri að svara spurningum.

„Ef ræða á við börn um mál sem þetta þurfa þau að upp­lifa ör­yggi. Auðvitað segj­ast þau held­ur vilja búa á Íslandi en í Nor­egi og að allt sé gott þrátt fyr­ir að lög­reglu og barna­vernd­ar­yf­ir­völd­um sé vel kunn­ugt um að það er ekki rétt,“ sagði Dal­haug fyrir dómi samkvæmt Morgunblaðinu.

Lögmaður barnsföður Eddu sagði hana hafa sýnt yfirvöldum fullkomna óvirðingu og að þar sem drengjunum hefði verið komið fyrir á óþekktum stað á Íslandi væri ómögulegt að vita um líðan þeirra og ástand.

Faðir drengjanna hefði þjáðst af svefntruflunum, martröðum og sjálfsvígshugsunum og verið í veikindaleyfi frá vinnu um langa hríð. Þá væri vitað að áhrif mála á borð við þetta á sálarlíf barna væru skelfileg og í mörgum tilvikum óafturkræf.

„Ég hvet alla á Íslandi, sem vitn­eskju kunna að hafa um íverustað drengj­anna, til að til­kynna lög­reglu, eða Leifi Run­ólfs­syni lög­manni, um þá vitn­eskju eða grun­semd­ir, nú er mik­il­væg­ast af öllu að hægt verði að hefjast handa sem fyrst við að koma þeim inn í sam­fé­lagið á ný,“ sagði lögmaður föðurins við blaðamann Morgunblaðsins.

Verjandi Eddu sagði hana játa sök að hluta en að framganga hennar hefði byggt á áhyggjum hennar af velferð barna sinna. Neitaði hún því að sú mynd sem ákæruvaldið hefði dregið upp endurspeglaði líðan og stöðu drengjanna á Íslandi. Þeir þrifust vel, ættu vini og leggðu stund á knattspyrnu.

Árs fangelsi væri hámarksrefsing í málinu.

„Dóm­ar í svipuðum mál­um hafa hér tak­markaða þýðingu þar sem ástæður og kring­um­stæður eru alltaf ólík­ar frá máli til máls. Við höf­um nú kraf­ist þess að hún [Edda] verði lát­in laus svo hún geti farið heim og sinnt börn­un­um sín­um. Við sjá­um svo hvað set­ur þegar dóm­ur fell­ur í mál­inu,“ sagði verjandi Eddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×