Fótbolti

Davíð seldur til Álasunds

Sindri Sverrisson skrifar
Davíð Snær Jóhannsson bætist í hóp Íslendinga sem spilað hafa fyrir Álasund. Hér er hann mættur í búningsklefa félagsins.
Davíð Snær Jóhannsson bætist í hóp Íslendinga sem spilað hafa fyrir Álasund. Hér er hann mættur í búningsklefa félagsins. Aalesund

FH-ingar hafa selt einn sinn albesta leikmann á síðustu leiktíð, U21-landsliðsmanninn Davíð Snæ Jóhannsson, til norska knattspyrnufélagsins Álasunds.

Davíð skrifaði undir samning við Álasund sem gildir til ársins 2028, en frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.

Álasund leikur í næstefstu deild Noregs á næstu leiktíð eftir að hafa fallið úr úrvalsdeild í síðasta mánuði.

Davíð átti frábært tímabil fyrir FH í ár og skoraði sjö mörk og átti sjö stoðsendingar í 23 leikjum, en FH endaði í 5. sæti Bestu deildarinnar.

„Davíð er spennandi leikmaður og flottur náungi. Hann er með hungrið, hjartað og góðan karakter sem er mikilvægt bæði innan og utan vallar. Hann hefur unnið sig upp og öðlast reynslu í gegnum U21-landsliðið og með dvöl hjá Lecce á Ítalíu. Það verður gleðilegt að fá Davíð til Álasunds og vinna í því að þróa hann áfram með okkur í AaFK næstu árin,“ sagði Christian Johnsen, þjálfari Álasunds.

Á heimasíðu félagsins er þess getið að faðir Álasunds, Jóhann Birnir Guðmundsson, hafi einnig spilað í Noregi og Davíð hafi því tengingu við landið nú þegar. Jóhann var leikmaður Lyn.

„Ég er fæddur í Osló og við fórum svo til Svíþjóðar þegar ég var eins árs. Ég tala því ágætis sænsku því við bjuggum þar í fimm ár. Í dag á ég erfitt með að skilja norskuna en ég held að það taki ekki langan tíma að laga það,“ sagði Davíð sem kveðst afar spenntur fyrir því að vera genginn til liðs við Álasund. Hann hafi heyrt margt gott um félagið frá öðrum Íslendingum en með liðinu hafa til að mynda spilað þeir Aron Elís Þrándarson, Daníel Leó Grétarsson, Adam Örn Arnarson og Hólmbert Aron Friðjónsson.

Davíð, sem á að baki 45 leiki fyrir yngri landslið Íslands, er uppalinn í Keflavík og hefur spilað 74 leiki í efstu deild hér á landi. Hann var á mála hjá ítalska félaginu Lecce fyrri hluta árs 2022 áður en hann gekk í raðir FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×