Fótbolti

Meistarar Víkings til­kynntu þrjá nýja leik­menn

Sindri Sverrisson skrifar
Valdimar Þór Ingimundarson, Jón Guðni Fjóluson og Pálmi Rafn Arinbjörnsson
Valdimar Þór Ingimundarson, Jón Guðni Fjóluson og Pálmi Rafn Arinbjörnsson @vikingurfc

Íslands- og bikarmeistarar Víkings, í fótbolta karla, boðuðu til blaðamannafundar í hádeginu í dag til að kynna þrjá nýja leikmenn liðsins.

Eins og Vísir greindi frá fyrir helgi er einn leikmannanna landsliðsmaðurinn fyrrverandi Jón Guðni Fjóluson. Hann er 34 ára miðvörður með mikla reynslu sem hafði náð inn í byrjunarlið íslenska landsliðsins áður en hann sleit krossband í hné haustið 2021, en síðan þá hefur hann ekki getað spilað fótbolta.

Jón Guðni Fjóluson í leik gegn Þýskalandi haustið 2021, skömmu áður en hann sleit svo krossband í hné.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Jón Guðni var síðustu ár á mála hjá Hammarby í Svíþjóð en hefur einnig leikið í Noregi, Rússlandi og Belgíu, eftir að hafa byrjað meistaraflokksferilinn með Fram.

Víkingar kynntu einnig Valdimar Þór Ingimundarson, 24 ára miðjumann sem sló í gegn með Fylki og skoraði átta mörk í 14 leikjum sumarið 2020 áður en hann var seldur til Strömsgodset í Noregi. 

Valdimar Þór Ingimundarson var magnaður með Fylki áður en hann hélt í atvinnumennsku sumarið 2020.VÍSIR/VILHELM

Valdimar var hjá Strömsgodset í tvö ár en hefur tvö síðustu tímabil leikið með Sogndal í næstefstu deild Noregs, og skorað sjö mörk á hvorri leiktíð. Valdimar á að baki tvo A-landsleiki og ellefu leiki með U21-landsliðinu.

Þriðji leikmaðurinn er svo markvörðurinn ungi Pálmi Rafn Arinbjörnsson, sem er Njarðvíkingur en kemur til Víkings frá enska úrvalsdeildarfélaginu Wolves. Pálmi Rafn er nýorðinn tvítugur og hefur spilað átján leiki fyrir yngri landslið Íslands. Víkingar misstu eftir síðasta tímabil markvörðinn Þórð Ingason sem lagði hanskana á hilluna.

Valdimar og Pálmi skrifuðu báðir undir fjögurra ára samning við Víking en samningur Jóns Guðna er upp á tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×